Bandaríski leikarinn Kelsey Grammer, sem er hvað best þekktur fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Frasier, var í viðtali á dögunum til þess að kynna hasarmyndina Transformers: Age of Extinction.
Grammer talaði m.a. um hlutverk sitt sem Hank „Beast“ McCoy í X-Men-myndunum. Glöggir áhorfendur nýjustu myndarinnar, X-Men: Days of Future Past, hafa eflaust séð Grammer bregða fyrir rétt fyrir lok myndarinnar, en í fyrstu átti hann ekki vera í myndinni.
„Eftir að ég hitti Hugh Jackman, sem sagði mér frá myndinni þá varð ég mér úti um handritið og sá þar að ég hafði ekkert pláss nema kannski í endann, þannig ég hringdi í Bryan Singer og sagði honum að ég vildi vera með. Bryan bjó til pláss í handritinu fyrir mig og ég skemmti mér mjög vel,“ sagði Grammer í viðtali við vefsíðuna Collider.
X-Men: Days of Future Past hefur notið gríðarlegra vinsælda og telja sumir gagnrýnendur að um sé að ræða bestu myndina í seríunni. Í myndinni var farið aftur til fortíðar, nánar tiltekið til ársins 1973, til þess að breyta framtíðinni, því í framtíðinni áttu hinir stökkbreyttu undir högg að sækja frá vélmennum sem höfðu genamynstur persónunnar Mystique.
Ný mynd um stökkbreytinga er í bígerð og mun hún gerast árið 1983. Það þykir því ólíklegt að Grammer komi til með að leika í þeirri mynd, en leikarinn Nicholas Hoult mun eflaust sjá um hlutverkið að mestu líkt og hann gerði í Days of Future Past.