Nýjar myndir af tökustað Skyfall, 23. myndarinnar um ofurnjósnarann James Bond láku á netið á dögunum. Ekki er það í fyrsta skipti eða annað sem slíkt gerist, en í þetta skiptið er það frásögu færandi vegna þess að á þeim gefur að líta illmenni myndarinnar.
Auðvitað vissum við nú flest nú þegar nokkurnvegin hvernig Javier Bardem lítur út, en myndirnar koma samt nokkuð á óvart. Í fyrsta lagi er spænski sjarmörinn klæddur í breskan lögreglubúning og í öðru lagi er hann með frekar sítt ljóst hár. Maðurinn er greinilega ekki heppinn með hárgreiðslur. Um ástæður múnderingar hans veit ég ekki meira, og vil í raun ekki vita fyrr en 26. október þegar myndin kemur í bíó. Hér er kallinn:
Myndinni er sem áður segir leikstýrt af Sam Mendes, um handritsgerð sá John Logan (The Aviator, Hugo) ásamt þeim Neal Purvis & Robert Wade (síðustu fjórar Bond myndir… og Johnny English!). Daniel Craig snýr aftur í hlutverk Bonds, ásamt Judi Dench sem M, og í leikhópnum eru auk Bardems klassa nöfn á borð við Ralph Fiennes, Albert Finney, Naomie Harris og Bérénice Marlohe. Útgáfa myndarinnar ber upp á 50 ára afmæli kvikmyndaseríunnar. Hér sést svo til gamans Craig vel rykugur við tökur sama dag: