Leikarinn Christian Bale mun fara með hlutverk stofnanda Apple, Steve Jobs, í nýrri kvikmynd um líf hans. Handritshöfundur myndarinnar, Aaron Sorkin, staðfesti þetta fyrir skömmu í viðtali við Bloomberg Television. Sorkin hefur m.a. skrifað myndina The Social Network um stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg.
,,Við þurfum besta leikarann í hlutverkið og það er Chris Bale. Hann þurfti ekki einu sinni að koma í áheyrnarprufu,“ sagði Sorkin við Bloomberg.
Danny Boyle mun leikstýra myndinni, en hann á að baki kvikmyndir á borð við Trainspotting, 127 Hours og Slumdog Millionare.
Leikstjórinn David Fincher var fyrst í viðræðum um að stýra myndinni en samningar náðust ekki vegna launamála og áætlanir hans um markaðssetningu myndarinnar.
Það er ekki langt síðan kvikmyndin Jobs, með Ashton Kutcher í titilhlutverkinu var frumsýnd. Myndinni var ekki vel tekið og var Kutcher tilnefndur til Razzie-verðlauna fyrir frammistöðu sína.
Sagan um Steve Jobs er stórmerkileg og fékk hann snemma áhuga á tölvum. Jobs stofnaði Apple fyrirtækið í bílskúrnum heima hjá sér aðeins 21 ára gamall ásamt Steve Wozniak árið 1976. Fyrstu tölvur þeirra Apple I og Apple II komu svo á markað ári seinna.
Það var svo árið 1996 að Steve tók aftur við forstjórastöðu Apple og hefur uppgangur fyrirtækisins verið með ólíkindum síðan. Steve stóð fyrir þróun og uppbyggingu á tækjum eins og iMac, iPod, iPhone og iPad sem skilað hafa fyrirtækinu methagnaði hvað eftir annað.
Jobs lést fyrir aldur fram árið 2011, 56 ára að aldri.