Nú þegar styttist í fjórðu Jurassic Park myndina þá er um að gera að rifja upp hvar ævintýrið byrjaði.
Fyrsta myndin um Júragarðinn var frumsýnd árið 1993 og var leikstýrt af Steven Spielberg. Jurassic Park er byggð á samnefndri bók eftir Michael Crichton frá árinu 1990. Myndin fjallar um eyju þar sem tekist hefur að endurskapa risaeðlur með nútímatækni. Júragarðurinn var langvinsælust kvikmynda á Íslandi árið 1993 og sáu um 78.000 manns myndina.
Myndband sem sýnir á bak við tjöldin við gerð á fyrstu myndinni hefur farið sem eldur í sinu um netheima. Myndbandið sýnir þar Steven Spielberg leikstýra myndinni á sinn einstaka hátt. Spielberg kemur til með að framleiða fjórðu myndina en hann leikstýrði fyrstu tveimur myndunum, Jurassic Park og The Lost World: Jurassic Park.
Colin Trevorrow hefur verið ráðinn leikstjóri Jurassic Park 4. Þetta kemur nokkuð á óvart því Trevorrow er óreyndur og hefur aðeins leikstýrt einni mynd, Safety Not Guaranteed sem kom út árið 2012.