Avatar aftur í bíó, nú 8,5 mín. lengri

Stórmyndin Avatar, sem hefur þénað 2,74 milljarða Bandaríkjadala í miðasölunni um heim allan, er á leið aftur á hvíta tjaldið með 8,5 mínútna viðbótarefni, bardögum og fleiri atriðum. Hún verður einungis sýnd í þrívíddarbíóum í þetta sinn.
Myndin verður svo gefin út á 2D DVD og Blu-ray diskum í nóvember og þar verður myndin 16 mínútum lengri en upprunalega útgáfan, að því er talið er.
„Við höfum fylgst með því hvað það er sem fólk er hrifið af við myndina, og bætt við fleiri slíkum atriðum,“ segir framleiðandinn Jon Landau í samtali við Reuters fréttastofuna.
Myndin verður nú endursýnd í 1.000 bíóum um heim allan, í 14 löndum utan Bandaríkjanna, þar á meðal í Bretlandi, Rússlandi og í Taívan. Hún verður m.a. sýnd í 50 IMAX bíóum utan Bandaríkjanna.
Myndin var gefin út á DVD í apríl sl. en þá fylgdi ekkert aukaefni með. Nú í nóvember er hinsvegar komið að þeirri útgáfu.
Útgáfu myndarinnar í 3D Blu-ray hefur verið frestað þangað til á næsta ári þar sem enn eru of fá þrívíddarsjónvörp á markaðnum.
Fyrir þá sem eru ekki komnir með nóg af James Cameron þá er í bígerð að sýna þrívíddarútgáfu af stórmynd hans Titanic árið 2012.