Avatar 2, 3, 4 og 5 fá frumsýningardaga

Frumsýningardagar fyrir næstu fjórar Avatar myndir hafa nú verið gefnir út opinberlega, en Avatar 2, sú fyrsta af þessum fjórum nýju, verður frumsýnd 18. Desember árið 2020. Hinar þrjár fylgja svo í kjölfarið; Avatar 3 kemur 17. Desember 2021, Avatar 4 kemur í bíó þremur árum síðar, eða 20. desember 2024 og sú síðasta, Avatar 5, verður frumsýnd 19. desember 2025.

Þetta var tilkynnt á opinberri fésbókarsíðu myndanna, ásamt mynd af James Cameron leikstjóra, og leikhóp og tökuliði.

„Frábært að vinna með besta liðinu í bransanum! Avatar tekur flugið nú þegar við byrjum að vinna samtímis að fjórum nýjum myndum,“ segir Cameron í færslunni.

Fyrir ári síðan, á CinemaCon afþreyingarhátíðinni, tilkynnti Cameron að hann myndi gera fjórar framhaldsmyndir af Avatar, og sagði þá að sú fyrsta myndi koma í bíó árið 2018. Þessi höfundur hinnar upprunalegu Avatar, sem er mest sótta mynd allra tíma, með 2,8 milljarða bandaríkjadala í aðsóknartekjur, sagði á þeim tíma að sýn hans á söguna hefði útvíkkast umtalsvert.

Fyrst hafði hann séð fyrir sér tvær framhaldsmyndir, en eftir að hann hafði fundað með handritshöfundum, listamönnum og hönnuðum, þá áttaði hann sig á að hann hefði efni í meira en tvær myndir. Hann fjölgaði þeim þá í þrjár, og svo aftur í fjórar.

„Við höfum ákveðið að leggja upp í risastórt verkefni, og gera fjórar sögulegar stórmyndir, sem hver stendur fyrir sínu, en mynda heildstæða sögu,“ sagði Cameron á CinemaCon.

Tilkynningin kom strax eftir að leikstjórinn hafði sagt bíóeigendum, að hann væri á móti nýju fyrirtæki Sean Parker ( Napster, Facebook ) sem heitir Screening Room, en fyrirtækið vill frumsýna nýjar kvikmyndir heima í stofu hjá fólki samtímis og þær eru frumsýndar í bíóhúsum.

„Treystið mér, þessar myndir eru gerðar fyrir stóra tjaldið fyrst,“ sagði hann.

Leikararnir Zoe Saldana, Sam Worthington, Sigourney Weaver og Stephen Lang mæta öll aftur til leiks í nýju myndina.

„Ég veit hvar ég verð næstu átta árin,“ sagði Cameron. „Það tók okkur fjögur og hálft ár að gera Avatar 1, og núna gerum við fjórar samtímis.“

Hér fyrir neðan má sjá Fésbókarfærslu Cameron: