James Cameron hefur margoft sagt að við gætum átt von á lengri útgáfu á Avatar þegar hún kemur út á DVD/Blu-Ray. Upprunalega lengd myndarinnar var í kringum þrír tímar en til þess að IMAX-bíóin gætu ráðið við hana þurfti að stytta tímann um meira en 20 mínútur.
Það var samt ekki eina ástæðan fyrir því að myndin var skorin niður heldur þurfti Cameron að taka fáeinar senur burt til að aldursstimpillinn færi ekki yfir PG-13 í bandaríkjunum. Það vill svo skemmtilega til að ein slík sena var (SPOILER?) tiltekið ástaratriði (undir tilteknu tréi) á milli Sam Worthington og Zoe Saldana. Og já, þið giskuðuð á rétt. Öll sú sena var tölvugerð.
Cameron segist hafa þurft að taka það atriði nánast alveg út (þið sjáið rétt svo byrjunina á því í bíóútgáfunni), enda þótti það nokkuð gróft og eiginlega bara hreint út sagt undarlegt.
Við erum samt ekki að tala um einhverja „hardcore“ kynlífssenu þar sem Worthington og Saldana þurftu að koma sér í trúboðastellingu í Motion-Capture búningunum, heldur gengur mökun þeirra Jake og Neytiri meira út á þessa sérkennilegu tengingu sem Na’vi verurnar hafa (sem þýðir þá kannski líka að Jake Sully hefur þá átt mök við hestanna og flugdýrin…). Engu að síður þóttu stunurnar í Zoe nokkuð óviðeigandi og því bað Fox um að láta fjarlægja atriðið. Cameron hefur samt gefið í skyn (í viðtali við TheTelegraph.co.uk) að þetta atriði verði til staðar á DVD disknum. Hann segir að þetta sé mjög skondið til áhorfs.
2009 er svo sannarlega ár bláu nektarinnar.

