Assassins Creed verður Fassbender mynd

Breski leikarinn Michael Fassbender, sem þekktur er fyrir leik sinn í X-men, Shame, Hunger, Inglorious Besterds, Prometheus og fleiri góðum myndum, mun kynda undir uppreisnir, ferðast um í tíma og flækjast um heim allan í næstu mynd sinni. Um er að ræða kvikmyndagerð af tölvuleiknum vinsæla Assassins Creed, en undirbúningur er kominn á gott skrið eftir að kvikmynda- og sjónvarpsdeild tölvuleikjafyrirtækisins Ubisoft tilkynnti að búið væri að semja við kvikmyndafyrirtækið New Regency um gerð myndarinnar.

Leikurinn fjallar um mann sem upplifir minningar forfeðra sinna og blandast inn í sögulega atburði. 38 milljón eintök hafa selst af leiknum síðan hann kom fyrst á markað árið 2007.

Nýjasti Assassins Creed leikurinn er væntanlegur á markaðinn 31. október.