Anita Briem í annarri þrívíddarmynd ?

Þrátt fyrir þá hroðalegu dóma sem Journey to the Center of the Earth 3D fékk á sínum tíma þá er ekki hægt að neita því að hún þénaði ágætis pening og var af mörgum talin ansi skemmtileg þrívíddar rússíbanareið. Framleiðendur myndarinnar, New Line Cinema hafa ákveðið að hefja viðræður við fyrirtæki að nafni Walden um að búa til svipaða stórmynd sem mun nýta þrívíddartæknina til hins ýtrasta.

Myndin verður ævintýramynd miðuð að yngri aldurshópunum og, ef samningar nást, mun hún bera nafnið Mysterious Travels: The Lost Map of Treasure Island. Myndin á að sameina bók Jules Verne, Mysterious Island; bók Robert L. Stevenson, Treasure Island og bók Jonathan Swift, Gulliver’s Travels.

Leikstjóri Journey to the Center of the Earth 3D mun leikstýra þessari, en hann og handritshöfundur eru að vinna í gerð handrits þessa dagana. Engir leikarar hafa verið ráðnir til verksins, en miklar líkur eru á að Brendan Fraser, Josh Hutcherson og hin eldheita íslenska Anita Briem muni fá hlutverk.