Anchorman 2 átti að verða söngleikur

Handritshöfundurinn, framleiðandinn og leikstjórinn Adam McCay, sem hefur gert nokkrar myndir með Will Ferrell í aðalhlutverkinu, þar á meðal Talladega Nights, Other Guys og Anchorman, segist ætla að hafa söngatriði í Anchorman 2 sem nú er í undirbúningi.

Í samtali við vefsíðuna playlist.com staðfestir hann þetta, og segir að nú þegar sé búið að semja nokkur lög fyrir myndina.

„Við ætluðum að gera Anchorman 2 að Broadway söngleik fyrst, og sýna hann í sex mánuði á sviði, og fara svo og taka söngleikinn upp sem bíómynd. Það var upphaflega hugmyndin okkar.“

Sú hugmynd fékk þó ekki brautargengi, en samt sem áður þá verða fleiri en eitt lag sungið í  heild sinni í myndinni. „Öll söngatriðin sem við höfum gert í myndunum okkar – við gerðum [ í Anchorman ]  Afternoon Delight ( sjá lagið hér að neðan ), Adam Scott og fjölskylda söng Sweet Child O´Mine [ í Step Brothers ], við gerðum heilt lag fyrir Talladega Nights sem var klippt út úr myndinni – eru tekin upp live á tökustað,“ segir McCay.

McCay er núna í miðjum klíðum að endurskrifa handrit Anchorman 2 með Will Ferrell, þannig að söguþráðurinn liggur ekki enn fyrir. McCay segir þó að myndin verði að sjálfsögðu fíflaleg, og muni tækla fjölmiðlaumhverfi sem er nær okkur í tíma en í fyrri myndinni, þegar farið er að senda fréttir út allan sólarhringinn.