Alheimshákarlaárás í vændum

Fimmta Sharknado kvikmyndin er nú væntanleg, en framleiðendur eru The Asylum og sjónvarpsstöðin Sy-Fy.  Tökur hefjast í Búlgaríu á næstu dögum.

Nú er Norður Ameríka rústir einar, og heimurinn býr sig undir alheimsárás fljúgandi mannætuhákarla. Fin Shepard og fjölskylda hans þurfa að gera hvað þau geta til að koma í veg fyrir heimsendi.

Anthony C. Ferrante, leikstjóri fyrstu fjögurra myndanna, er snúinn aftur til að leikstýra í fimmta sinn. Handrit skrifar Scotty Mullen.

Samkvæmt frétt kvikmyndaritsins Variety þá munu tökur myndarinnar fara fram í alls fimm löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum og í Ástralíu.

Fyrsta Sharknado myndin kynnti til sögunnar fyrsta hákarlafellibylinn, sem lenti á Los Angeles. Í Sharknado 2: The Second One, varð New York borg fyrir barðinu á dýrunum. Í Sharknado 3: Oh Hell No! þá fór mikill hákarlastormur niður eftir austuströnd Bandaríkjanna, allt frá Washington, D.C. til Flórída. I Sharknado: The 4th Awakens geisaði stormur um öll Bandaríkin.

Myndin endaði á því að Eiffel turninn var rifinn upp með rótum, og var hent í Níagarafossana í Bandaríkjunum.

Nú er stormurinn orðinn alþjóðlegur eins og fyrr sagði.

Sjáðu stiklu úr fjórðu myndinni hér fyrir neðan: