Streymisrisinn Netflix hefur fest kaup á tveimur kvikmyndum sem slógu í gegn á Kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi sem lauk í gær. Fjallar önnur þeirra um afsagaða hönd sem strýkur úr krufningarherbergi og fer að leita að eiganda sínum.
Myndirnar tvær sem um ræðir heita Atlantics og I Lost My Body, en myndirnar voru báðar frumsýndar í Cannes á dögunum. I Lost My Body fékk Nespresso verðlaunin á Critic´s Week hluta hátíðarinnar. Ingvar E. Sigurðsson fékk einnig verðlaun á Critic´s Week, fyrir aðalhlutverk í kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, sem hlaut góðar móttökur á hátíðinni.
Atlantics, sem er bæði skrifuð og leikstýrt af Mati Diop, vann Grand Prix verðlaunin á hátíðinni í gær. Með helstu hlutverk í myndinni fara Mama Sané, Amadou Mbow, Ibrahima Traoré, Nicole Sougou, Amina Kane, Mariama Gassama, Coumba Dieng, Ibrahima Mbaye og Diankou Sembene.
Sagan fjallar um Ada, 17 ára, sem er ástfangin af Souleiman, ungum byggingarverkamanni. En hún er lofuð öðrum manni. Kvöld eitt fara Souleiman og samstarfsmenn hans úr landi sjóleiðina, í leit að betra lífi. Nokkrum dögum síðar verður eldsvoði í brúðkaupi Ada, og dularfull veiki breiðist út. Ada að óvörum þá hefur Souleiman snúið aftur.
Hin myndin, sem sagt var frá í upphafi fréttarinnar, er teiknimyndin I Lost My Body eftir Jérémy Clapin. Með aðalhlutverk í henni fara Hakim Faris, Victoire Du Bois og Patrick d’Assumçao.
Myndin fjallar um afsagaða hönd, sem flýr úr krufningaherbergi, og ætlar sér að finna líkama sinn á ný. Á leið sinni um Parísarborg, þá rifjar höndin upp lífið með unga manninum sem hún var eitt sinn hluti af … þar til þau hittu Gabrielle.
Netflix myndin Roma vann fyrr á þessu ári Óskarsverðlaunin, en hún var frumsýnd á Cannes hátíðinni fyrir ári síðan. Myndin vann þrenn Óskarsverðlaun, fyrstu þrjá Óskara Netflix.