Gera á kvikmynd eftir leikritinu Afanum eftir Bjarna Hauk Þórsson. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og þar er jafnframt haft eftir Sigurði Sigurjónssyni, sem leikið hefur afann á sviði, að hann muni leika afann í bíómyndinni. „Ég mun fá að leika afann minn áfram í þessari mynd. Ég kann bæði rulluna og svo er ég reyndar alla daga þess á milli að æfa mig heima fyrir. Ég er sjálfur afi, á þrjú barnabörn, þannig að ég er í stöðugum æfingabúðum,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið.
Handrit myndarinnar skrifar Bjarni Haukur í samstarfi við Ólaf Egilsson.
Sigurður lék afann í tæpum eitt hundrað sýningum, en hann segir að bíómyndin verði stór og mikil. Hann segir að einleikurinn sé að koma út á DVD um jólin. „Einleikurinn er kominn í tösku í bili en hann kemur út á DVD-diski um jólin. Fólk getur rifjað hann upp þar en við erum að gera allt aðra hluti í þessari bíómynd.“
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins hefur ekki verið ákveðið hvenær tökur á myndinni hefjast eða hverjir leika á móti Sigurjóni í myndinni.