Aaron Paul er sennilega best þekktur sem meth-salinn Jesse Pinkman í hinum vinsælu þáttum Breaking Bad frá AMC. Þó að ferill Bryan Cranston hafi glæðst á mest áberandi hátt í kjölfar þáttanna – í hvaða mynd er hann eiginlega ekki – þá hefur stjarna Paul einnig risið hægt og bítandi, og var hann m.a. einn þeirra sem til greina kom til að leika McClane Jr. í A Good Day to Die Hard.
Kvikmynd samnefnd bílaleikjunum lífsseigu Need For Speed hefur verið á hugmyndastigi í dágóðan tíma, en nú virðist vera að koma skrið á hlutina. Leikstjóri verður fyrrum áhættuleikarinn Scott Waugh (Act of Valor), og bræðurnir George og John Gatins (Real Steel) hafa sett saman handrit sem byggir ekki á neinum sérstökum leik í seríunni. Myndin á að koma út í febrúar 2014.
Tölvuleikjamynd eftir leikstjóra Act of Valor? Ég verð að viðurkenna að fyrir mig persónulega hljómar ekkert af þessu sérstaklega spennandi – þó að Need for Speed séu með þeim fáu tölvuleikjum sem ég hef persónulega prófað. Að fá Paul inn í aðalhlutverkið gæti þó bjargað málunum. Aldrei að segja aldrei.