Þegar hugsað er um mennina á bakvið Indiana Jones eru flestir fljótir til að nefna Steven Spielberg og Harrison Ford, en framleiðandinn Frank Marshall er ekki síður mikilvægur. Hann hefur komið ýmsum stórmyndum á stóra tjaldið, þar á meðal The Sixth Sense, Back to the Future myndirnar og jafnvel Gremlins myndirnar.
Það birtist viðtal við Marshall í New Haven Register þar sem hann segir dvölina í New Haven vera góða, en tökur á Indiana Jones 4 hafa farið fram þar. Hann og Spielberg voru sammála því að vilja hafa myndina í sama stíl og hinar þrjár myndirnar (eða B mynda fílingnum, eins og hann orðar það), sem er ástæðan fyrir því að þeir munu ekki reiða sig á tölvutæknibrellur.
Mikil leynd hefur ríkt yfir tökustaðnum en Marshall segir það vera vegna þess að þeir vilja ekki eyðileggja spennuna sem fylgir því að sjá myndina í fyrsta sinn.

