Verður Bale í Batman 3?

The Dark Knight er ekki ennþá komin út og Christian Bale, sá sem leikur Batman sjálfan, er strax farinn að tala um að langa til að leika í enn einni myndinni um Batman. Christian er svo sem enginn nýgræðingur í hlutverkinu því hann lék Batman líka í myndinni Batman Begins sem kom út árið 2005.

Christian segir að handritið að The Dark Knight veiti nægilegt ráðrúm fyrir framhald og sýnir hann framhaldinu mikinn áhuga. Það lofar góðu þegar Christian sýnir einhverju áhuga, en hann hefur lagt ýmislegt á sig fyrir hlutverkin sín hingað til og ekki við öðru að búast en að það sama gildi um Batman. Fyrir myndina The Machinist lagði hann það t.d. á sig að léttast niður í óeðlilega litla þyngd og fyrir myndina Rescue Dawn skreið hann ásamt meðleikurum sínum í leðju, borðaði orma með þeim og svo skiptust þeir á að tína blóðsuguskordýr af líkama meðleikara sinna.

Christian hefur aldrei lært leiklist þannig að ákafi hans og staðfesta hafa fleytt honum langt. Hann hefur þó gríðarlega reynslu á bakinu og segja má að hann hafi fyrst slegið í gegn 13 ára, í myndinni Empire of the Sun.