Karakterinn sem Chow Yun-Fat leikur í Pirates of the Caribbean: At Worlds End hefur verið gagnrýndur í Kína. Þess vegna hafa nokkrar senur með honum verið klipptar til í kínversku útgáfunni. Á meðal þess sem klippt er út er upplestur Chow á kínversku ljóði.
Ástæðan fyrir því að Kínverjar eru ósáttir við karakterinn er sú að þeim finnst hann vera allt of mikil staðalmynd. Í staðinn fyrir að vera kínverskur í útliti þá lítur hann út eins og Hollywood telur Kínverja eiga að vera.
Kínverski dreifingaraðilinn hélt því upphaflega fram að myndin hefði ekki verið klippt til, en neitaði síðan að svara frétt þess efnis að búið hefði verið að klippa myndina. Samkvæmt fréttinni var erfitt að fylgja söguþræðinum eftir þegar búið var að eiga svona við myndina og áhorfendur í Pekíng urðu þess vegna frekar ringlaðir yfir nokkrum atriðum í myndinni.
Kínverska kvikmyndaeftirlitið bannaði Pirates of the Caribbean: Dead Man’s Chest í heild sinni vegna atriða sem innihéldu mannætuhegðun og drauga.

