Fjaðrafok í kringum gróðann af LotR

Fimmtán leikarar sem tóku þátt í Hringadróttinssögu Peter Jackson’s, The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring, The Lord of the Rings: The Two Towers og The Lord of the Rings: The Return of the King, hafa kært kvikmyndafyrirtækið New Line vegna rifrildis um gróða af sölu á varningi tengdum kvikmyndunum. Leikararnir, sem koma frá Nýja-Sjálandi, halda því fram að New Line hafi svikið samning sem gekk út á að þeir ættu að fá 5% af áætluðum 100 milljóna dollara gróða.

Þetta er ekki fyrsta kæran í tengslum við myndirnar, því árið 2005 kærði framleiðslufyrirtæki Peter Jackson‘s dreifingaraðilana fyrir að svíkjast undan greiðslum af gróðanum, t.d. af sölu DVD diska fyrstu myndarinnar.

Sama ár tókust sættir utan dómstóla á milli New Line og framleiðandans Saul Zaentz sem hafði átt réttinn á bókum Tolkien frá því 1976.