Nicolas Cage er nýbúinn að skrifa undir samning að fara með eitt aðalhlutverkið í nýjustu mynd Neil LaBute (Nurse Betty), The Wicker Man og er það endurgerð á samnefndri hryllingsmynd frá 1973.
Það má vissulega deila um það hvort hryllingsmynd skildi kalla (þeir sem hafa séð myndina hljóta að sjá hvað ég á við) en í þeirri mynd fóru þeir Edward Woodward og Christopher Lee (sem lengi taldi hlutverk sitt þar vera eitt af því merkilegasta sem hann upplifði á feril sínum) með aðalhlutverkin. Söguþráðurinn verður óbreyttur og segir myndin frá rannsóknarlögreglu sem rannsakar hvarf ungrar stúlku á eyju þar sem lítill hópur af fólki hefur búsett sig. Hlutirnir virðast eðlilegir í fyrstu og eru móttökurnar góðar, en það líður ekki langt þar til að ýmsir sérkennilegir og heldur óeðlilegir hlutir fara að koma í ljós.
Frummyndin varð að svo mikilli ‘cult-mynd’ vegna þess að margar senurnar á eyjunni, þ.á.m. þær tengdum vissum “athöfnum“ hjá þorpsbúunum, þóttu svo ákafar og sjokkerandi fyrir þennan tíma. Í dag þykir myndin heldur meinlaus og verður forvitnilegt að sjá hvernig LaBute tekst að fara með efnið og hvort hann nái að sprauta einhverjum ferskleika inn í það. Þessi endurgerð mun hefja tökur sínar í júlí næstkomandi.

