Annar skammtur af Alexander

Þegar Oliver Stone komst að því að Baz Luhrmann (Moulin Rouge) ætlaði sér að gera mynd eftir sínu eigin draumaverkefni stóðst hann ekki mátið sjálfur og skellti í framleiðslu það sem hann hafði ætlað sér að gera síðan The Doors var í framleiðslu. Þessar sitthvorar myndir um Alexander Mikla voru farnar að skarast of mikið á og á endanum þurfti að fresta mynd Luhrmann’s en þar átti Leonardo DiCaprio að fara með aðalhlutverkið og Nicole Kidman með móðurhlutverkið sem Angelina Jolie túlkaði hjá Stone. Eftir að mynd Olivers var langt komin voru umræður um að útgáfa Luhrmann’s væri sama og dauð, en framleiðandinn Dino De Laurentiis hefur opinberlega staðfest að hún verði gerð. Laurentiis játar einnig að mynd Stone’s hafi verið gölluð og misheppnuð að mörgu leyti og að hann sé sannfærður um að Luhrmann geri þá útgáfu sem fólkið ‘vill’ sjá. Engin dagsetning er uppljóstruð á myndinni enn.