Enn og aftur og ekki í fyrsta sinn eru farnar að ganga um sögusagnir um að Paramount kvikmyndaverið sé farið að undirbúa jarðveginn að fjórðu Indiana Jones myndinni. Síðast fyrir tveimur árum eða svo var verið að tala um að M. Night Shyamalan ( Unbreakable , The Sixth Sense ) hefði verið fenginn til þess að skrifa handritið, en síðan heyrðist ekki söguna meir. Nú hefur komið í ljós að Paramount ákvað að nota ekki hans útgáfu en eru farnir að skoða önnur handrit og aðra rithöfunda. Eini gallinn, og það sem gerir ólíklegt að þetta verkefni verði að raunveruleika, er sú staðreynd að frá hendi Paramount kemur ekki til greina að gera myndina nema Harrison Ford leiki aðalhlutverkið , Steven Spielberg leikstýri og George Lucas framleiði myndina. Þeir vilja allir fá vel borgað, og allir vilja þeir fá stóran hlut af mögulegum hagnaði myndarinnar. Paramount sér eins og er enga möguleika á því að raunverulega hagnast á gerð myndarinnar og því er vafasamt að ráðist verði í verkefnið. Þeir eru samt sem áður víst þessa dagana að velta þessu fyrir sér af fullri alvöru, því tíminn er að renna út og Harrison Ford að nálgast sextugt.

