Fyrir u.þ.b. 4 árum síðan var nafnið Peter Jackson ekki eitthvað sem margir könnuðust við. Í dag efast ég um að það sé nokkur aðili sem fylgist með nútíma menningu sem ekki þekkir til snillingsins.
Alveg síðan framleiðsla hófst á nýjustu mynd hans, King Kong, hefur mikið verið rætt um hvað hann muni gera að því loknu. Sumir hafa sagt að hann haldi aftur til ódýrra splatter-mynda (að hætti Braindead og Bad Taste), aðrir hafa gengið svo langt með að segja að hann snúi sér að sögunni The Hobbit. Svo var mikið talað um að hann vildi gera epíska stórmynd sem ætti sér stað í fyrri heimstyrjöldinni (glöggir aðdáendur Jacksons ættu að vita að hann hefur mikið dálæti af því stríði), hljómar ekki illa. En allavega kemur ekkert af þessu til greina núna, því samkvæmt nýlegu viðtali við leikstjórann ásamt Phillipu Boyens eru þau búin að ákveða næsta verkefni.
Myndin heitir The Lovely Bones og er byggð á samnefndri skáldsögu. Hér er á ferðinni furðulegt drama sem verður mikið í líkingu við Heavenly Creatures, en einnig verður smá vottur af fantasíu í þessu. En sagan fjallar um náin – og heldur rugluð – sambönd milli hópa af persónum. Meginþráðurinn segir frá 14 ára stúlku sem verður myrt á hrottafenginn hátt, og hvernig hún “fylgist“ með fjölskyldu sinni eftir dauðann, sem og morðingja hennar.
Þessi þráður hljómar ansi… forvitnilega, en á þessu stigi ætti maður að vita betur en að hafa efasemdir um Jackson, sérstaklega þegar um er að ræða eitthvað sem hann hefur mikinn áhuga á. Annars mun King Kong endurgerðin láta sjá sig í kringum næstu jól og mun eflaust fylgja henni gríðarleg eftirvænting.

