Farrell lætur veturinn fram hjá sér fara

Grínistinn stórvaxni Will Farrell er með nóg á sinni könnu. Eftir að hafa slegið í gegn í Old School, standa honum allar dyr opnar í Hollywood. Hann hefur hingað til haldið sig við léttari gamanmyndir, enda grínleikari af guðs náð, en engu að síður mun hann reyna á leiklistarhæfileikana á næstunni í dramanu Winter Passing. Hann mun þar leika á móti þungaviktarleikanum Ed Harris, og einnig Zooey Deschanel, en hún leikur einnig á móti Farrell í jólamyndinni væntanlegu Elf. Winter Passing fjallar um einrænan skáldsagnahöfund sem hefur lítið samband við dóttur sína. Hún kemur í heimsókn til föður síns eftir sjö ára fjarveru, til þess að komast að því að húsið er fullt af fólki sem hún þekkir ekki, þar á meðal einum af fyrrum nemendum föður hennar. Koma dótturinnar verður síðan hvati að miklum breytingum fyrir alla sem í húsinu eru. Myndinni verður leikstýrt af Adam Rapp, en þetta ku vera hans fyrsta mynd. Tökur á myndinni munu hefjast síðar í næsta mánuði og verður hún tekin upp í New York.