Nýtt hjá Brittany Murphy

Eftir gríðarlega frammistöðu sína í kvikmyndum eins og 8 Mile og Just Married, hefur stjarna Brittany Murphy risið hátt í Hollywood. Hún er nú með tvær nýjar myndir í burðarliðnum. Sú fyrri heitir Major Movie Star og fjallar um poppstjörnu eina sem er búin að snúa sér að kvikmyndaleik. Enginn tekur hana alvarlega sem leikkonu og því ákveður hún að ganga í herinn sem undirbúning fyrir hlutverk, til þess að afla sér virðingar. Það kemur síðan í ljós að lífið í hernum er ekki það sem hún bjóst við, og ýmis skondin atvik munu dúkka upp á yfirborðið. Síðari myndin er tölvuteiknuð, og mun hún radda hana ásamt Robin Williams og Elijah Wood. Heitir hún Happy Feet og fjallar um mörgæs sem eltir draum sinn á suðurheimsskautslandinu.