Skipt hefur verið um leikstjóra væntanlegrar þriðju myndar í Mission: Impossible bálknum. Ákveðið hafði verið að David Fincher myndi leikstýra henni, en hann hefur ákveðið að kljást við minna verkefni í staðinn, og er það hjólabrettamyndin The Lords Of Dogtown. Í staðinn hefur verið fenginn Joe Carnahan, sem frægastur er fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndinni Narc, en Tom Cruise hreifst svo af henni að hann fór persónulega í það að auglýsa hana. Ekkert er vitað um söguþráð þessarar þriðju myndar, en bæði hefur verið rætt um Robert Towne ( Chinatown ) og Dean Georgaris (sem skrifaði handritið að næstu mynd John Woo sem nefnist Paycheck) sem hugsanlega handritshöfunda að myndinni. Cruise langar mikið til að MI-3 verði hans næsta mynd, en það fer alveg eftir því hvernig þessi undirbúningsvinna tekst til.

