Molina í næstu Spider-Man?

Leikarinn frábæri Alfred Molina er samkvæmt heimildum nánast öruggur með hlutverk Dr. Octopus í næstu Spider-Man mynd. Leikstjórinn Sam Raimi sagðist ætla að reyna að finna réttu leikarana í hlutverkin, en ekki réttu stjörnurnar, og er þetta greinilega liður í því ferli. Molina hefur verið afar traustur og góður karakterleikari í gegnum tíðina, þrátt fyrir að vera ekki mjög frægur. Hann ætti að smellpassa í þetta hlutverk, og ef samningar ganga eftir, þá mega aðdáendur kætast. Eins og alþjóð veit, þá er Dr. Octopus einn frægast óvinur Köngulóarmannsins, og heitir réttu nafni Dr. Otto Octavius. Hann lenti í því að málmarmar sem hann var að vinna með brunnu fastir við líkama hans í furðulegu slysi. Eftir það gat hann stjórnað þeim með huganum, og missti einnig vitið. Hann hyggur á heimsyfirráð og aðeins Köngulóarmaðurinn getur stöðvað hann. Þetta framhald verður frumsýnt sumarið 2004.