Spider-Man heldur áfram að setja aðsóknarmet í Bandaríkjunum. Áætlað er að hún hafi halað inn 72 milljónir dollara um helgina, sem þýðir að hún hafi aðeins dalað um 37% frá því um seinustu helgi þegar hún tók inn rétt tæpar 115 milljónir dollara. Algengast er að stórmyndir af þessari gráðu hrapi um 50% eða meira frá fyrstu helgi til annarar. Þessi önnur helgi er einnig fjórða stærsta helgi allra tíma, og langstærsta önnur helgi sem kvikmynd hefur nokkurntíma átt. Áætlað er að hún sé því komin upp í 223.6 milljónir á aðeins 10 dögum. Hún hefur því líka verið fljótust allra mynda að komast upp í 200 milljónir dollara, aðeins 9 daga, en hún var einnig fljótust allra að komast upp í 100 milljónir. Til dæmis má nefna að Star Wars: The Phantom Menace var 13 daga upp í 200 milljónir, og Harry Potter and the Philosopher’s Stone var 15 daga. Hún hefur nú fram á næsta fimmtudag til þess að hala grimmt inn, en þá verður Star Wars: Attack Of The Clones frumsýnd. Gaman verður að sjá hvernig sá slagur fer.

