Mexíkóskir kvikmyndadagar í Háskóla Íslands eru nú í fullum gangi, en dagarnir eru skipulagðir af nemum í kvikmyndafræði og spænsku við Háskólann. Dagskráin er fjölbreytt og henni ætlað að veita innsýn í blómlega kvikmyndagerð Mexíkó um þessar mundir -án þess að vanrækja fyrri tíma og sögulegar hefðir.
Opnunardagurinn var fimmtudagurinn 8. apríl og væru þá sýndar myndirnar Crons og Sin Nombre. Myndirnar sem sýndar verða föstudaginn 9. apríl varpa ljósi á stórborgarsamfélag Mexíkóborgar og segja þroskasögur ungs fólks sem á erfitt með að fóta sig í ólgusjó stöðugra breytinga.
Kl. 18.00 Og mamma þín líka (sp. Y tu mamá también, Alfonso Cuarón, 2001).
Kl. 20.00 Fjóluilmur (sp. Perfume de violetas, Marisa Sistach , 2001).
Myndirnar sem sýndar verða laugardaginn 10. apríl eru af öðrum toga því hér eru á ferðinni tvær stórskemmtilegar gamanmyndir frá fyrri tímum. Aðalleikari beggja mynda, Mario Moreno eða „Cantinflas“, er goðsöguleg persóna í kvikmyndasögu Mexíkó. Einfaldi ómenntaði alþýðumaðurinn sem vefur fólki um fingur sér með málskrúði og fagurmæli varð þess valdandi að Konunglega spænska málfarsstofnunin samþykkti hugtakið „cantinflear“ um þann sem talar mikið án þess að segja nokkuð. Chaplin taldi Mario Moreno mesta „grínista“ veraldar.
kl. 18.00 Bóleró Rakelar (sp. El bolero de Raquel, 1957)
kl. 20.00 Sá ólæsi (sp. El analfabeto, 1961)
Sýningar fara fram í stofu 101 í Lögbergi,, Háskóla Íslands.
Myndirnar eru sýndar með enskum texta.
Aðgangur ókeypis og öllum opinn!

