Gamli refurinn Robert De Niro hefur leikið ýmsa karaktera í gegnum tíðina, og misyndislega. Nú hefur hann ákveðið að túlka ruðningshetjuna Vince Lombardi sem leiddi lið sitt Green Bay Packers af botni deildarinnar og alla leið til sigurs.
Það er kvikmyndadeild íþróttastöðvarinnar ESPN, sem framleiðir myndina.
Eric Roth, sem áður skrifaði Forrest Gump, hefur verið ráðinn til að skrifa handrit, en sagan hefst árið 1959 þegar Lombardi fékk sitt fyrsta tækifæri sem þjálfari í NFL deildinni og tók þá við Packers liðinu.
Lombardi leiddi liðið til þriggja meistaratitla í röð á sjöunda áratugnum og liðið var fremst í flokki í NFL deildinni mestallan þann áratug.
Lombardi lést árið 1970, 57 ára gamall og síðan 1971 hefur verðlaunagripurinn sem ár hvert er gefinn því liði sem vinnur SuperBowl, borið nafn hans og er kallaður Vince Lombardi styttan.
ESPN ráðgerir að frumsýna myndina árið 2012 og þá í tengslum við stóratburð í NFL deildinni.

Vince Lombardi er sláandi líkur Robert De Niro.

