The Good Heart frumsýnd í mars

Ný íslensk kvikmynd, The Good Heart eftir Dag Kára Pétursson verður frumsýnd þann þann 4.mars nk. Aðalhlutverkin eru í höndum Hollywood stórstjarnanna Brian Cox (Troy) og Paul Dano (Little Miss Sunshine,There Will Be Blood) .

Í fréttatilkynningu frá Zik Zak framleiðslufyrirtækinu segir þetta um myndina:
„Heimilislaus drengur Lucas (Paul Dano) kynnist Jaques (Brian Cox) úrillum kráareiganda sem hefur fengið fimm hjartaáföll sökum gjálífis. Jaques tekur Lucas undir væng sinn með það fyrir augum að arfleiða hann að kránni. Allt gengur eftir óskum þar til að drukkin flugfreyja (Isild le Besco) kemur áætlunum Jaques í uppnám.“

The Good Heart er tekin upp á Íslandi, í New York og í Dóminíska lýðveldinu. Dagur Kári er handritshöfundur sem og leikstjóri auk þess sem hljómsveit hans og Orra Jónssonar Slowblow sér um tónlistina í myndinni. Dagur Kári hefur áður gert Nóa albínóa og hefur The Good Heart nú þegar fengið hvarvetna glimrandi viðtökur og dóma, að því er segir í tilkynningu Zik Zak. Myndin hefur verið seld til tuttugu og tveggja landa og fengið dreifingu m.a. í Bandaríkjunum og Frakklandi.

 


Paul Dano með önd í fanginu, í The Good Heart.