DVD RÝNI – Watchmen: Ultimate Cut

Nú er komið að DVD umfjöllun, sem verður vonandi að föstum lið aftur.
Ég veit ekki hvort þið munið eftir því, en þegar leið að jólum í fyrra
þá kom ég með vikulega pistla sem fjölluðu um hina og þessa diska, og
suma m.a.s. gáfum við í getraunum. Hver veit nema við höldum því áfram
á næstunni.

Kynning:

Það kemur stöku sinnum fyrir að ég fái smá löngun til að fjalla um
stórar DVD útgáfur, jafnvel þótt þær séu bara til á Bandaríska svæðinu.
Ég er meira að gera þetta fyrir þá sem hafa bæði sterkan áhuga á svona
löguðu og versla reglulega í 2001, Nexus og/eða á Amazon,
og sem strangtrúaður Watchmen-aðdáandi vildi ég endilega fjalla aðeins
um þessa stóru útgáfu sem kom út á DVD og Blu-Ray þann 3. nóvember í
BNA, lenti í gær í 2001 og kemur á næstu dögum í Nexus.

Ég er enn mjög svekktur yfir að Director’s Cut-útgáfan af Watchmen hafi
ekki verið gefin út á DVD hérna heima, þ.e.a.s á evrópsku svæði. Nánast
allir sem hafa séð hana vilja hvergi sjá bíóútgáfuna aftur, og til
hvers? Hún var ekki skorin niður af listrænum ástæðum heldur einungis
svo hún myndi vera undir þriggja tíma markinu til þess að
kvikmyndahúsin gætu spilað hana oftar á dag (sem – fyrir þá sem kunna
að reikna – þýðir meiri peningur). Núna var að koma eitthvað sem
kallast WATCHMEN: ULTIMATE CUT, og þó að þetta líti út eins
og eðalpakki, þá verð ég að segja að hann er voða blandaður, og það er
erfitt að finna ekki fyrir lyktinni af peningaplottinu.

Ef að þið eruð aðdáendur myndarinnar og harðir safnarar (og ég er viss
um að margir hérna séu það) þá hafið þið eflaust keypt myndina áður.
Hins vegar, ef þið hafið þegar keypt Watchmen: Motion Comic-diskinn þá verðið nokkuð svekkt ef þið fjárfestið í þetta.

Áður en ég fjalla um settið (þ.e. DVD settið, ekki Blu-Ray útgáfuna) vil ég taka nokkra hluti fram:

– Myndin sem fylgir með er bara útgáfan sem inniheldur Tales of the Black Freighter-teiknimyndina, sem þýðir að það er ekki hægt að velja um hvort maður vilji hafa hana eða ekki (svekk).

– Ekki láta það blekkja ykkur þegar þetta er auglýst sem „5 diska
pakki“ því það er bara einn diskur með myndinni, einn með aukaefni.
Diskar 3 og 4 mynda saman „Motion Comic“ settið (sem þegar hefur verið
hægt að kaupa sér) og 5. diskurinn er svokallað „Digital Copy,“ sem er
HD útgáfa af bíóútgáfunni sem bara er hægt að spila í tölvu.

En hér kemur rýnin, og eftirfarandi texti mun innihalda nördaleg komment frá mér. Biðst velvirðingar á því.

DISKUR 1:

Ég er búinn að skrifa nógu fjandi mikið um þessa mynd svo ég skal reyna
að hafa þetta stutt. Ég fjallaði um hana í bíó og skrifaði um lengdu
útgáfuna líka (u.þ.b. 2,500 orð samtals!). Í hnotskurn: Ég dýrka hana,
og finnst hún vera ein af vanmetnustu myndum ársins. Hún mun aldrei
teljast fullkomin og ef ég „nit-pikka“ duglega þá finn ég nóg af
göllum, en það er líka smámunasemi.

Director’s Cut-útgáfan (186 mín) er eins góð og Watchmen-mynd getur orðið. Núna er komin 205 mín.
útgáfa þar sem Black Freighter-teiknimyndin er klippt inn í venjulegu
myndina ásamt nokkrum nýjum senum (sem eru ekkert of mikilvægar samt).
Skiptingin er stundum mjög ljót og stundum mjög útpæld, en almennt
hefur þessi teiknimynd rosaleg áhrif á flæði myndarinnar (sérstaklega í
lokin) og í hvert skipti sem hún bregður fyrir líður manni eins og
einhver hafi skipt um rás á sjónvarpinu. Þetta sýnir manni að sumt
virkar augljóslega betur í myndasöguformi.

Þetta er þó ágæt tilraun til að reyna að þóknast aðdáendum betur, en
voða tilgangslaus. Ég fatta hvað Black Freighter sagan hefur að segja
manni, en ef ég á að vera hreinskilinn þá var ég aldrei það hrifinn af henni, hvorki hér né í bókinni.
Skondið samt að sjá að Gerard Butler bættan við kreditlistann í byrjuninni.

– Það fylgja tvö mjög fróðleg „commentary“ með myndinni. Leikstjórinn Zack Snyder talar á öðru, og teiknarinn Dave Gibbons
á hinu. Snyder getur verið ógurlega áhugaverður eina stundina en
drepleiðinlegur þá næstu enda maðurinn ekki alveg með réttu röddina
fyrir svona lagað. Sem betur fer hefur hann fullt að segja til að bæta
upp fyrir þagnirnar sem koma inn á milli. Gibbons hljóðrásin er aðeins
einhæfari en það getur verið þægilegt að hlusta á hann. Ég mæli með
báðum hljóðrásunum sem afþreying til að hafa í gangi meðan þú gerir
aðra hluti, eins og t.d. að skrifa kvikmyndaumfjallanir.

DISKUR 2:

„Featurettes“ eru voða ómerkileg finnst mér. Þau eru meira til að kynna
myndina frekar en að koma með nýjar og skemmtilegar upplýsingar. Hérna
hefði löng heimildarmynd um gerð myndarinnar verið vel þegin. Það eru
reyndar ágæt vídeóefni hér til staðar, en sum þeirra hafði ég séð áður
á Director’s Cut-disknum. Frekar aumt af aðstandendum. Þeir setja ekki
einu sinni traileranna inn.

DISKUR 3 & 4:

Watchmen Motion-Comic:

Þetta voru 5 laaaangir klukkutímar. Mér finnst eitthvað svo súrt við
það að „horfa“ á myndasögu. Bókin er auðvitað meistarastykki en mér
finnst þægilegra að lesa sjálfur heldur en að láta einhvern þul lesa
hana fyrir mig. Líka afskaplega kjánalegt að aðeins einn maður skuli
lesa yfir alla bókina og þ.a.l. tala fyrir kvenkyns persónurnar líka,
sem allar hljóma eins og dragdrottningar. Ágætt samt að sjá upprunalegu
teikningarnar með smá hreyfingum.

Sniðugt að eiga svosem, sérstaklega ef þú ert mjög latur og hefur fóbíu gagnvart bókum.


DISKUR 5:

Eins og áður kom fram, „Digital“ eintak af bíóútgáfunni. Hef ekkert við
það að gera. Ekki slæmt að hafa hana til staðar þó, svo menn geti borið
útgáfurnar saman.

Lokaniðurstaða:

Ef Director’s Cut-útgáfan myndi fylgja með sér þá myndi ég klárlega
segja „keyptu þetta undir eins!“ þ.e.a.s. ef þú ert aðdáandi
myndarinnar. Þetta var að sjálfsögðu viljandi gert af dreifingaraðilum
svo við myndum punga út endalausu fjármagni aftur og aftur fyrir fáeina
viðauka (George Lucas-style!). En málið er að það er fullt af góðu
aukaefni hér að finna og ef þú átt ekki Motion Comic-diskinn getur
verið mjög gaman að eiga hann. 205 mín. útgáfan af myndinni er líka
virkilega skemmtileg þótt ég myndi persónulega ekki horfa á hana oft.
Ég kann að vísu að meta Ultimate Cut-útgáfuna sem „geekgasm“ upplifun. Það er ekki hægt að meta hana sem venjulega
bíómynd, en til þess höfum við hina útgáfuna, fyrir þá sem vilja sjá
aðlögun sem pælir í strúktúr og skipulögðu upplýsingaflæði.

Niðurstaðan veltur á því hvort að þú sért hrifinn af Black Freighter
sögunni eða ekki, því hún er víst mjög umdeild meðal aðdáenda. Ef þú
ert ekkert heitur fyrir henni þá myndi ég segja pass á þessa, þrátt
fyrir fínt – en ekki frábært – aukaefni, og halda mér við Director’s
Cut-útgáfuna. Ef þú fílar myndina, hefur ekki lesið bókina og aldrei
séð teiknimyndina þá myndi ég alveg taka sénsinn og fjárfesta í þessum
safngrip, þrátt fyrir peningaplottið.

Myndin: 8/10
Heildarpakkinn: 7/10