Örfréttir dagsins

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa heilar fréttir um eitthvað ákveðið efni þá hef ég komið með nýjan lið sem nefnist „örfréttir,“ sem mun bara tilkynna þetta helsta sem er varla hægt að koma fyrir í heilli frétt. Byrjum bara strax á þessu:

J.J. Abrams talar um það á kvikmyndabloggi MTV að hinn sígildi Kahn muni hugsanlega snúa aftur í næstu Star Trek-mynd, sem mun þá vera önnur myndin í „nýju“ seríunni.

– Fyrir stuttu síðan var haldin lokuð forsýning á ókláraðri útgáfu á Prince of Persia: The Sands of Time þar sem hlutlaust fólk var beðið um að mæta og voru viðtökurnar í einu orði sagt frábærar. Myndin fékk sérstakt hrós fyrir vandaða persónusköpun og góðan húmor.

ScreenDaily vefurinn tilkynnti það fyrir nokkrum dögum síðan að Magnolia Pictures hafi keypt Bandaríska dreifingarréttinn á nýjustu mynd Dags Kára, The Good Heart, þar sem þeir Brian Cox og Paul Dano fara með helstu hlutverk. Einnig mun myndin vera fáanleg á löglegri stream-síðu á netinu á næsta ári, þar sem hægt er að borga fyrir að sjá hana heima.

– Einnig á kvikmyndabloggsíðu MTV talar David Goyer um Ghost Rider-framhaldið. Hann segist ætla að hafa stílinn allt öðruvísi en hann var í fyrri myndinni og segir að myndin verði eins frábrugðin henni og Casino Royale var ólík Die Another Day. Goyer lofar margfalt dekkri mynd, og söguþráðurinn gerist cirka áratugi eftir viðburði fyrri myndarinnar.

– BloodyDisgusting.com segir frá því að Oren Peli sé á fullu að skipuleggja sína næstu mynd, en Peli hefur nýverið að byggja upp gott orðspor með Paranormal Activity. Næsta mynd hans heitir Area 51 og er þegar búið að ráða nokkra óþekkta leikara í hlutverkin.

– Nýjasta mynd Richards Kelly, The Box, olli talsverðum vonbrigðum í miðasölunni yfir helgina (fór beint í 7. sætið). Þetta átti einmitt að vera hans mest „commercial-mynd.“ Kelly er þekktastur fyrir Donnie Darko og Southland Tales.