Það er kominn föstudagur og það þýðir nýr Topp 10 listi. Seinast tók ég 10 verstu myndir sem byggðar eru á tölvuleik,
sem var frekar „basic“ listi þar sem ekki mikið kom til greina. Núna
ætla ég að koma með eitthvað aðeins bragðmeira. Ég tek það líka
sérstaklega fram að ég er ekki að koma með einhverjar staðreyndir,
heldur einungis það sem mér finnst.
Þá er bara að vinda sér í…
.:10 EFTIRMINNILEGUSTU ILLMENNI S.L. 10 ÁR:.
Eins og margir vita eru illmenni sagna ekki síður mikilvægari
heldur en hetjurnar. Reyndar finnst mér oftast mikilvægara að illmennin
komi vel út því það gefur manni enn meiri ástæðu til að halda með „góða
kallinum.“ Það er ekki mikið eftir af þessum áratug en engu að síður
vil ég telja upp þá skemmdu karaktera sem hafa staðið upp úr hingað til.
Á tíunda áratugnum fengum við persónur á borð við Hannibal Lecter,
Howard Payne, Amon Goeth, Archibald Cunningham, Francis Hummel, John
Doe (þ.e. Se7en), T-1000, Claude Frollo, Annie Wilkes, Sheriff
Nottingham (úr Prince of Thieves), Shooter McGavin, Mr. Freeze
(*hóst*), Penguin & Catwoman og eflaust fleiri, þannig að
samkeppnin er hörð. Sjáum hverja hægt er að finna cirka frá því að
aldamótin byrjuðu.
10. DOLORES UMBRIDGE (HARRY POTTER AND THE ORDER OF THE PHOENIX)
NEI, ekki Voldemort! Ég myndi glaðlega setjast niður og fá mér bjór
með þeim „manni“ á meðan Umbridge er einhver sem fær mann til að verkja
úr pirringi. Hún minnir mig svo hrikalega mikið á kvendjöfulinn Nurse
Rached úr Cuckoo’s Nest, og þar af leiðandi getur maður ekki annað en
hatað hana. Immelda Staunton er líka frábær í hlutverkinu, enda tókst
mér að fyrirlíta persónuna alveg jafn mikið í myndinni og í bókinni.
Auk þess er eitthvað svo nett óhuggulegt við bleika stílinn hennar og
aðdáun hennar á kettlingum er vægast sagt óheilbrigð. Ég fann mikið til
með Harry í þessari mynd, því það getur ekki verið auðvelt að þurfa að
„díla“ við gelgjuskeiðið og Umbridge á sama tíma.
9. KROENEN (HELLBOY)
Ekki beint aðalillmennið en klárlega minnisstæðari heldur en rússneski
zombie-inn sem var í myndinni. Þegar ég sá Hellboy fyrst fannst mér
Kroenen vera algjör „Badass,“ með stóru B-i. Hann hefur helstu hráefnin
sem skúrkar þurfa til að maður elski að hata þá. Kroenen er í hnotskurn
dauður, liðugur nasisti sem hefur ekki einn einasta vott af
persónuleika og drepur allt sem er í vegi hans og ekki með honum í
liði. Hann er reyndar ekki eins svalur þegar hann ekki með grímuna á
sér, en það er a.m.k. ekki hægt að segja að rétta útlit hans
endurspegli ekki þá týpu sem hann er.
8. THE CALLER (PHONE BOOTH)
Það er erfitt að fá ekki smá hroll þegar Kiefer Sutherland nýtur
sín að „fokka“ í Colin Farrell út alla myndina. Það er stórmerkilegt
hvað eitt illmenni getur haft kraftmikla nærveru bara með röddinni
sinni. Sá eini sem hefði getað toppað röddina hans Sutherlands er
líklega Jeremy Irons (þ.e.a.s. ekki með Die Hard 3 hreiminn).
7. MRS. CARMODY (THE MIST)
Aldrei hefur mig langað eins mikið til þess að segja „haltu kjafti,
kona!“ og þegar ég sá The Mist. Carmody (sem Marcia Gay Harden leikur
alveg hreint frábærlega) var meira að segja svo hötuð í bíóinu mínu að
salurinn klappaði og hrópaði af gleði þegar… ja… þið vitið! Og ég
hef heyrt að það hafi ekki bara gerst hjá mér, heldur langflestum. Það
er ansi sterkt merki um hatur. Í mínum huga er Carmody ekkert skárri
heldur en skrímslin sem voru í þokunni.
6. DON LOGAN (SEXY BEAST)
Ég hef sjaldan orðið vitni af eins ófyrirsjáanlegum, þrjóskum og
„intense“ karakter og Don Logan, sem Ben Kingsley lék af fullum krafti
(Gandhi hvað?!) í Sexy Beast. Ég hefði aldrei munað eftir þessari mynd
eins og ég geri í dag (og hvað þá nennt að horfa á hana aftur) ef
Kingsley hefði ekki verið á staðnum. Karakterinn hefði örugglega virkað
vel á blaði og einhver annar leikari hefði örugglega gert fína hluti
með hann, en Kingsley leikur manninn eins og blóðþyrst villidýr! Maður
tekur líka vel eftir því hvað ræman dalar heilmikið þegar hann er ekki
á skjánum.
5. ANTON CHIGURH (NO COUNTRY FOR OLD MEN)
Ef það er eitthvað sem myndi hræða mig meira heldur en æstur morðingi
sem talar í háum tón og blótar stöðugt, þá væri það sallarólegur
morðingi með Bítlaklippingu sem gengur um með loftpressu. Það er margt
svo óþægilegt við þennan mann, en sem áhorfandi er ómögulegt að verða
ekki dáleiddur yfir senunum hans, sérstaklega „coin toss“ senunni
frægu. Líka, svipurinn á honum í byrjuninni þegar hann drepur lögguna
gefur mér feitan hroll.
4. CAPTAIN VIDAL (PAN’S LABYRINTH)
Ég sver það, í hvert skipti sem ég horfi á þessa mynd, þá sé ég fyrir
mér Satan í dulargervi fasistans Vidal. Þessi maður er bara hrein
illska í hnotskurn og maður vill honum illt frá fyrsta atriðinu með
honum. Ég myndi meira að segja þiggja kvöldverð með „Pale Man“ gaurnum
úr sömu mynd heldur en að vera í sama herbergi og Vidal.
3. WILLIAM „BILL THE BUTCHER“ CUTTING (GANGS OF NEW YORK)
Núna er maður kominn út í eitthvað allt annað. Í efstu þremur sætunum
eru afar athyglisverð og flókin illmenni, og það fyndna er að maður á
mjög erfitt með að hata þau. Tökum Bill the Butcher sem dæmi. Hann
hefur sín prinsipp og maður skilur hans hlið þótt áhorfandinn sé ekki
endilega sammála henni. Síðan er lögð svo mikil áhersla á að sýna
hversu manneskjulegur hann er í raun, og hann ber mikla virðingu fyrir
réttu andstæðingunum. Bill er stundum algjör skepna, stundum
sjarmerandi en allan tímann athyglisverður og Daniel Day-Lewis
gjörsamlega fullkomnar karakterinn með brilliant frammistöðu.
2. HANS LANDA (INGLOURIOUS BASTERDS)
Það má jafnvel deila um það hvað hvort þessi maður sé „vondi kallinn“ í
myndinni því tæknilega séð er það Hitler, en Landa skilur auðvitað hvað
mest eftir sig. Hiklaust! Það væri móðgun að skrifa umfjöllun um
Inglourious Basterds án þess að tala um Christoph Waltz, og meira að
segja þeir sem fíla ekki myndina hafa ekkert nema jákvæða hluti að
segja um þennan karakter. Það segir heilmikið! Landa er vægast sagt
lúmskur djöfull. Áhorfandinn veit aldrei hvar hann hefur hann og þær
persónur sem ræða við hann undir fjórum augum vita aldrei strax hvað
hann er að fara. Það er rosalega erfitt að botna í reglunum sem hann
setur sér (af hverju skaut hann t.d. ekki Shosönnu í byrjuninni?) en
maður gerir sér grein fyrir því að hann er andskoti gáfaður. Það er
algjör brandari að hugsa til þess að Leo DiCaprio sóttist eftir því að
fá að leika Landa, og ef Waltz fær ekki Óskarstilnefningu mun ég naga
af mér handlegginn.
1. THE JOKER (THE DARK KNIGHT)
En ekki hver??
Þetta er kannski „týpískt“ val en það er góð ástæða fyrir því. Jókerinn
hans Ledgers hefur bókstaflega ALLT! Hann er sturlaður, fyndinn,
ógnandi, ófyrirsjáanlegur og greinilega ekki hræddur við það að deyja,
eins og kemur nokkrum sinnum fram í myndinni. Ég elska líka hvernig
hann setur sér engar reglur og vill bara sjá heiminn fara til helvítis.
Yfirheyrslusenan er einhver besta sena sem ég hef séð undanfarin ár og
hvernig Jókerinn leikur sér að Dökka Riddaranum með því að láta hann
lemja sig í köku er alveg rosalegt.
Hvaða illmenni standa upp úr að þínu mati?

