Saw VI fær X og kemst bara í klámbíó

Kvikmyndastofnun Spánar hefur gefið hrollvekjunni Saw VI stimpilinn X vegna hrottafengins ofbeldis í myndinni. Þar með hafa einungis örfá bíó sem sérhæfa sig í sýningum á klámmyndum, leyfi til að sýna myndina.

Ákvörðunin kom dreifingaraðilanum Buena Vista mjög á óvart, en þeir höfðu búist við að fá stimpilinn Bönnuð innan 18, líkt og aðrar myndir í seríunni hafa fengið. Þetta er í fyrsta skipti sem kvikmyndastofnun Spánar gefur X stimpil vegna ofbeldis í kvikmynd.

Buena Vista hefur þegar áfrýjað ákvörðuninni, en ólíklegt er að niðurstaða fáist fyrir frumsýningu myndarinnar, sem er í dag föstudag. Fyrirtækið ætlar að bíða með að ákveða með næstu skref þangað til vitað verður hvað kemur út úr áfrýjuninni.

Áformað var að dreifa myndinni í 300 eintökum, sem er stórt upplag á Spáni. X stimpillinn kemur í veg fyrir mikla dreifingu þar sem ekki er hægt að sýna X myndir í venjulegum bíóhúsum. Myndin myndi þá einungis verða sýnd í 8 klámmyndabíóhúsum.

Saw myndirnar hafa verið mjög vinsælar á Spáni, en þar er blómlegur hryllingsmyndageiri.