Kirk næsti Ryan?

Paramount er þessa dagana í viðræðum við Chris Pine – betur þekktur sem hinn nýi James Kirk – um að taka að sér hlutverk Jack Ryan í glænýrri spennumynd að hætti Tom Clancy.

Það er ekki kominn titill ennþá, en það liggur víst ekkert á þar sem handritið er enn í vinnslu. Hossein Amini (The Four Feathers, Killshot) mun sjá um að skrifa það. Sagt er að myndin verði ekki byggð á Tom Clancy-bók eins og fyrri Jack Ryan-myndirnar, heldur verður sagan núna frumsamin. Ekki er vitað hver mun leikstýra. Það ætti allt að koma í ljós á næstunni. Samkvæmt Variety hafa aðstandendur viljað fá Pine staðfestan sem fyrst þar sem hann er nýorðinn heimsþekktur.

Pine verður þá fjórði leikarinn til að leika Ryan. Alec Baldwin lék hann fyrst í The Hunt for Red October árið 1990. Harrison Ford tók svo við árin ’92 og ’94 í Patriot Games og Clear and Present Danger. Ben Affleck lék hann svo núna síðast í The Sum of All Fears, sem kom út árið 2002.