Hollywood Reporter segir frá því að Bryan Singer hefur gríðarlegan áhuga að snúa aftur til X-Men-seríunnar. Fyrir þá sem ekki vita, þá var það Singer sem hóf þetta allt saman með fyrstu og annarri myndinni. Hann ætlaði að leikstýra þriðju myndinni líka, en þá komu Warner Bros. menn og buðu honum Superman Returns í staðinn. Síðan ætlaði hann að gera framhaldsmynd af þeirri mynd, en ekkert varð úr því og á endanum gerði hann Valkyrie, sem kom út snemma á þessu ári.
Singer hefur að undanförnu sést á fundum hjá FOX og er hann í viðræðum við þá um að snúa aftur. Það er ekki vitað hvort hann myndi gera fjórðu X-Men-myndina, nýja Wolverine-mynd eða allt aðra spin-off mynd. Það er allavega ljóst að undanfarin draumaverkefni Singers hafa gagnast honum lítið og vill hann þess vegna snúa aftur að því sem gerði hann heimsfrægan.
Persónulega vil ég sjá Singer gera X-Men Origins: Magneto.

