Núna hefur það verið staðfest, Ghostbusters 3 MUN verða að veruleika.
Ivan Reitman, sem leikstýrði fyrstu tveimur, er opinberlega
kominn um borð og mun hann vera einn af framleiðendum myndarinnar.
Samkvæmt Bloody Disgusting er hann jafnvel enn að ákveða hvort hann
ætti að leikstýra myndinni eða ekki. Hann hefur allavega sagt að honum þætti mjög erfitt að sjá einhvern annan leikstýra þriðju myndinni þar sem hinar tvær eru eflaust meðal þeirra minnisstæðustu á ferilskránni hans. En bara svona upp á gamanið þá
vil ég benda kvikmyndaáhugamönnum að síðustu tvær myndir sem Reitman
leikstýrði voru My Super Ex-Girlfriend og Evolution.
Það er ekki vitað mikið um innihaldið enn. Harold Ramis er víst nýbúinn
með fyrsta uppkastið að handritinu. Það sem vitað er að myndin muni
fjalla um gamla hópinn (með áherslu á orðið „gamla“), s.s. Harold Ramis, Dan Aykroyd, Bill Murray og Ernie Hudson. Þeir ákveða að opna aftur staðinn en í þetta sinn vilja þeir þjálfa nýja og yngri Draugabana, og gerist hver og einn þeirra nokkurs konar þjálfari.
Myndin fer vonandi í tökur fyrripartinn á næsta ári. Gæti jafnvel ekki orðið fyrr en um sumarið. Við megum samt ekki búast við að sjá hana fyrr en á þarnæsta ári, svo við verðum bara að bíða rólega.

