Dagskrá Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, sem hefst
17. september næstkomandi, er óðum að taka á sig mynd en lokað var fyrir
umsóknir nýlega og bárust hátt í 400 kvikmyndir alls staðar að. Í tilkynningu frá hátíðinni kemur fram að útlit sé fyrir
mjög spennandi dagskrá í ár og fjöldi nýrra kvikmynda verði tekinn til sýninga
þar sem áherslan er lögð á splunkunýjar og framsæknar kvikmyndir. Von er á
fjölda gesta erlendis frá en hátt í 100 kvikmyndir verða sýndar á hátíðinni í
mismunandi flokkum og í mörgum tilfellum er um að ræða heimsfrumsýningar,
Evrópu- eða Norðurlandafrumsýningar.
„Norskir kvikmyndagerðarmenn hafa lengi verið í skugga
nágranna sinna í Svíþjóð og Danmörku, en undanfarin misseri hefur verið fáheyrð
gróska í norskri kvikmyndagerð og Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fagnar
þeirri grósku með því að beina sjónum sérstaklega að norskum bíómyndum þetta
árið og verður sérstakur sýningarflokkur tileinkaður norskum myndum. Þar verða
sýndar fimm norskar myndir, grínmyndir sem og spennumyndir, ástarsögur og
fjölskyldudrömu,“ segir í tilkynningu kvikmyndahátíðarinnar.
Myndirnar fimm eru Norður
eftir Rune Denstad Langlo sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarna mánuði á
hátíðum og sópað að sér verðlaunum, Engill
eftir Margreth Olin og Saman
eftir Matias Armand Jordal en um er að ræða Evrópufrumsýningar á upptöldum myndum
en þær verða heimsfrumsýndar í Toronto í september. Ískossinn eftir Knut Erik Jensen og Dauður Snjór eftir leikstjórann Tommy Wirkola. Allar myndirnar eru
frá árinu 2009 fyrir utan Ískossinn
sem var frumsýnd í Noregi 2008.
„Norður (Nord) er melankólísk grínmynd sem gerist
á þjóðvegum Noregs. Aðalpersónan er fyrrum skíðakappi sem fær taugaáfall og
einangrast í kjölfarið, enda vinnur hann sem gæslumaður skíðasvæðis. En þegar
hann kemst að því að hann á fimm ára gamlan son heldur hann af stað í ljóðrænt
og einkennilegt ferðalag í gegnum Noreg á snjósleða, þar sem 5 lítrar af áfengi
er eina nestið. Norður hefur meðal
annars hlotið FIPRESCI verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2009 sem og
verðlaun fyrir besta nýliðann meðal leikstjóra á Tribeca-hátíðinni í New York,
sem Robert De Niro er forvígismaður af. Handrit myndarinnar er skrifað af
Erlend Loe, en eftir hann hafa komið út bækurnar Ofurnæfur og Maður og elgur.
Engill (Enkeli) fjallar um líf Leu sem er alin
upp á heimili móður sinnar og fyrrverandi manns hennar sem rífast stanslaust.
Lea eignast sitt fyrsta barn og ætlar í kjölfarið að hætta að nota eiturlyf og
sanna sig rækilega sem góð móðir en rekst á ýmsar hindranir vegna drauga
fortíðarinnar. Það er Íslandsvinkonan Maria Bonnevie, Embla úr Hvíta víkingnum,
sem fer með aðalhlutverkið í myndinni en hún var gestur RIFF árið 2008.
Leikstýran Margreth Olin er einn fremsti heimildamyndaleikstjóri Noregs og
leikstýrir hér sinni fyrstu leiknu mynd.
Kvikmyndin Saman (Sammen) fjallar um tvo feðga sem eru að
reyna af veikum mætti að komast yfir dauða móðurinnar sem hélt fjölskyldunni
saman. Þeir átta sig á að þeirra eigin tengsl eru nánast engin og á endanum
sendir faðirinn soninn á munaðarleysingjahæli í hreinni örvæntingu. En stráksi
er ekki tilbúinn til þess að gefast upp á þessari litlu fjölskyldu þeirra.
Ískossinn (Iskyss) er ljóðræn ástarsaga sem hefst í seinni heimstyrjöldinni og heldur
áfram þegar Kalda stríðið skellur á. Myndin er byggð á sönnum atburðum og
fjallar um Gunnvor, norska hjúkrunarkonu sem verður ástfangin af rússneskum
stríðsfanga, Vladimir. Þau hittast fyrst á spítala í Bodø en erfiðlega gengur
fyrir parið að ná saman í miðju Kalda stríðinu, þar sem ótal hættur leynast.
KGB sér möguleika í stöðunni og neyða Gunnvoru til þess að gerast njósnari
fyrir þá, ella hafi Vladimir verra af.
Hryllingsmyndin Dauður
snjór (Død snø) fjallar átta læknisfræðistúdenta sem
leggja saman af stað í páskafrí í norskum fjallakofa. Það sem þau vita ekki er
að sérstaklega ógeðfelldir nasistar höfðu ofsótt íbúa svæðisins sextíu árum
fyrr og haft með sér stóran ránsfeng upp í fjöllin þegar bæjarbúar gerðu
uppreisn gegn ofríki þeirra. En þótt þeir hafi króknað þar úr kulda þá koma
þeir aftur, nú sem nasista-zombíar,“ segir um myndirnar í tilkynningu RIFF.

