Kvikmyndir.is forsýnir Inglourious Basterds

Föstudaginn 21. ágúst mun Kvikmyndir.is vera með sérstaka forsýningu á nýjustu mynd Quentins Tarantino, Inglourious Basterds. Til þess að mynda aðeins öðruvísi stemmningu (og þar að auki er þetta nóttina fyrir Menningarnótt – svo allir verða vakandi og í góðum gír) höfum við ákveðið að hafa sýninguna kl. 12 á miðnætti, í stóra salnum í Laugarásbíói. Þetta er sami dagur og frumsýningin er vestanhafs, en myndin verður frumsýnd þann 26. ágúst.


Fljótlega munum við hefja getraun þar sem viss margir miðar verða gefnir á þessa forsýningu. Annars verða seldir miðar. Meira um það í vikunni.

Myndin segir frá bandarískri herdeild sem er send inn á mitt yfirráðasvæði Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni til þess að drepa eins marga þýska hermenn og hún mögulega getur og brjóta niður liðsandann í hernum. Með helstu hlutverk fara Brad Pitt, Eli Roth, Christoph Waltz, Daniel Brühl, Til Schweiger, Diane Kruger og Mélanie Leurent.

Ef þið hafið einhverjar spurningar þá hvet ég ykkur til að senda mér póst á tommi@kvikmyndir.is, en annars væri forvitnilegt að vita hverjir hefðu áhuga að mæta og taka þátt í smá miðnæturstemmningu, en eins og lesendur eflaust vita hefur slíkum sýningum því miður fækkað gríðarlega.