John Hughes látinn

Leikstjórinn góðkunni John Hughes lést fyrir skömmu vegna hjartaáfalls, aðeins 59 ára að aldri. Samkvæmt Variety var þetta snemma um morgunn þar sem hann tók sér göngutúr meðan hann heimsótti New York-borg.

Fyrir þá sem ekki eru alveg klárir á nafninu þá var þessi maður án efa þekktasti unglingamyndaleikstjórinn, með afar frægar (og m.a.s. margar klassískar) myndir að baki á borð við Sixteen Candles, The Breakfast Club, Ferris Bueller´s Day Off, Weird Science, She´s Having a Baby og Planes, Trains & Automobiles (sem undirritaður horfði MIKIÐ á í æsku). Hann skrifaði einnig m.a. Christmas Vacation og Home Alone, en hann pennaði líka þær myndir sem hann leikstýrði. Hann gerði ósköp lítið eftir níunda áratuginn annað en að sjá um búgarðinn sinn í Illinois-fylki og eyða tíma með fjölskyldu sinni.

Hughes lætur eftir sig eiginkonu sína sem hann var giftur í 39 ár, tvo syni og fjögur barnabörn.