District 9 slær í gegn á Comic-Con

 Vísindaskáldskapurinn District 9 sló í gegn á nýliðinni Comic-Con hátíð sem haldin var í San Diego nú í síðustu viku. District 9 hefur ekki verið laus við umtal en margir hafa forvitnast eftir að hafa frétt að enginn annar en Peter Jackson framleiðir myndina.

Myndin var sýnd á hátíðinni og að sögn nokkurra vefsíðna voru áhorfendur gáttaðir á stíl myndarinnar,
sem er víst talsvert öðruvísi en við eigum að venjast. Hún er tekin upp
digital vél sem nokkurs konar heimildarmynd. Gríðarlegt umtal hefur verið myndað í kringum myndina á veraldarvefnum og Jackson notaði töfra sína þónokkuð til þess að kynna District 9 á Comic-Con.

District 9 segir frá því að fyrir 30 árum síðan þá höfðu geimverur samskipti við jarðarbúa. Geimverurnar ferðast til jarðarinnar sem flóttamenn og er komið fyrir á ákveðnu svæði í Suður-Afríku á meðan að ríkisstjórnir heimsins ákveða hvað á að gera við þær. Ákvörðun er tekin um að koma umsjón þeirra í hendur einkarekins fyrirtækis sem er slétt sama um velferð þeirra, sem veldur aukinni spennu milli mannkyns og geimveranna. Fyrirtækið hagnast á því að selja vopnabúnað geimveranna en til þess að geta nýtt sér búnaðinn þarf DNA úr geimveru – hér kemur aðalsögupersónan Wikus til sögunnar. Blóð hans geymir dularfullan vírus með DNA til þess að nýta vopnabúnaðinn. Þá fer af stað eltingaleikur upp á líf og dauða og eini staðurinn sem Wikus getur falið sig á er á svæði geimveranna – svæði 9 (e. District 9).

Jackson segir að myndin sé í raun leifar frá upprunalegum hugmyndum varðandi Halo kvikmynd sem áætlað var að myndi koma út árið 2012, en Halo er gerð eftir samnefndum tölvuleik. Nýjustu fregnir herma hins vegar að það sé alfarið hætt við gerð Halo.

Það sem vekur helsta eftirtekt er að leikstjóranum tekst víst að búa til almennilegan persónuleika og karakter í kringum geimverurnar sem vekja upp sterkari tilfinningar hjá áhorfandanum en ella. District 9 er einnig óhrædd við að sýna truflað ofbeldi og eru margar senur djarfar á þeim mælikvarða – ,,hér er á ferðinni dimm og djúsí sci-fi mynd“ sagði einn áhorfandinn.

District 9 kemur í bíó vestanhafs 14.ágúst, en ekki hefur verið ákveðið hvort hún verði tekin til sýninga á Íslandi. Trailer fyrir myndina má sjá á undirsíðu hennar hér á Kvikmyndir.is. Ég læt nokkrar stillimyndir og plaköt úr District 9 fylgja með.