LA Confidential 2?

Kannski ekki alveg, en nógu nálægt samt. Framhaldið af L.A. Confidential heitir White Jazz, og er bók sem er skrifuð af James Elroy sem skrifaði LA Confidential. Nú á að kvikmynda þetta framhald, og munu Nick Nolte og John Cusack leika aðalhlutverkin. Hún mun aftur fjalla um spillingu innan lögreglunnar í Los Angeles og í þetta sinn er það lögreglufulltrúinn Dave Klein sem sagan fjallar um. Þegar sögusagnir um spillingu innan lögreglunnar leka út til fjölmiðla, er hann gerður að blóraböggli. Hann reynir því að halda lífinu og hreinsa mannorð sitt áður en það er um seinan. Myndinni verður leikstýrt af Robert Richardson, en hann hefur aðallega getið sér gott orð sem kvikmyndatökumaður og meðal mynda sem hann hefur unnið við sem slíkur má telja JFK , Bringing Out the Dead og Casino. Þessi mynd verður hins vegar leikstjórafrumraun hans.