Nolan ólíklegur til að stýra Batman 3

IGN greindi frá því nýlega að Christopher Nolan er á fullu þessa dagana að undirbúa myndina Inception, sem verður dýrasta myndin hans til þessa og mun kosta hátt í $200 milljónir. Nolan er auðvitað spurður að því reglulega hvort hann taki þriðju Batman-myndina að sér og nú loks hefur hann gefið frá sér almennilegt svar.


Sagt er að Nolan sé ólíklegur til þess að gera þriðju myndina þar sem ómögulegt er að kvikmynda þá sögu sem hann hafði í huga. Þar átti Harvey Dent að vera áfram dauður og Jókerinn hefði haldið áfram sem helsta illmennið. Nolan tók dauða Ledgers vitaskuld mjög nærri sér og telur það ómögulegt að fá einhvern annan leikara til að feta í hans spor í hlutverkinu.

Talsmenn Nolans segja einnig að það þurfi heilmikið til fyrir Warner að ná að sannfæra hann um að snúa aftur. Hann hafði einnig sagt fyrir einhverju síðan að fáar sem engar „Nr. 3-myndir“ hafa náð að vera bestar, sama hvaða kvikmyndaseríu er rætt um.

Inception er sögð vera lítil saga sem gerist í epísku umhverfi, og þar kemur rándýra framleiðslan við. Sú mynd mun eflaust þurfa allan fókus frá leikstjóranum svo ólíklegt er að hann hugsi mikið um Batman á næstunni. Svo er líka orðrómur um það að Warner Bros hafi sett saman stuttan lista yfir þá leikstjóra sem gætu hugsanlega komið í staðinn fyrir hann, og eitt af þeim nöfnum er Zack Snyder (300, Watchmen).

Nánari staðfesting er eflaust á leiðinni.



Er einhver sammála mér því að Zack Snyder gæti verið aðeins of stílískur leikstjóri til að halda því jarðbundna andrúmslofti sem Nolan bjó til?