Indy 5: Líklegri en maður heldur?

Ég hélt að allt þetta mas um Indy 5 væri bara orðrómur og óskhyggja í framleiðendum, en það lítur víst út fyrir að myndin sé mjög líklega að fara að líta dagsins ljós, eða svo gefur leikarinn Shia LeBeouf í skyn.

LeBeouf sagði við BBC að Steven Spielberg væri búinn að finna „réttu söguna“ fyrir fimmtu Indiana Jones-myndina, og að hann væri gífurlega spenntur fyrir henni. Við fáum auðvitað ekkert að vita neitt meira um það fyrr en það sé 100% öruggt að myndin verði gerð. Hins vegar virkar Spielberg á mig sem þannig maður sem gæti gert hvaða kvikmynd sem hann vildi ef nógu stór áhugi væri til staðar.

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull fékk að sjálfsögðu engar æðislegar viðtökur, eins og eflaust flestir vita. Mér persónulega fannst hún mjög léleg og setti ég hana m.a.s. á minn lista yfir verstu myndir ársins 2008. Minnir að hún hafi verið nr. 3.

En hver veit? Kannski George Lucas ákveði að skipta sér ekki af fimmtu myndinni. Það væri öflugt skref í réttu áttina.

Hvað finnst ykkur? Mynduð þið vilja sjá Harrison Ford hundgamlan í rullunni enn einu sinni?