Eftirfarandi er fréttatilkynning:
Stuttmyndin Aldrei stríð á Íslandi eftir leikstjórann Braga Þór Hinriksson verður frumsýnd þann 6. mars n.k. á undan mynd Clint Eastwood, Gran Torino. Þessi íslenska stuttmynd gerist í miðri borgarastyrjöld í Reykjavík eftir byltinguna miklu eða eins og segir í lýsingu: Þegar stríðandi fylkingar kljást í landi sem hefur aldrei átt her og altjent boðað frið verður tiltangsleysið skýrt í augum hermanns, sem aldrei hefur drepið mann. Það má segja að brotið sé blað í sögu stuttmyndagerðar á Íslandi hvað varðar dreifingu því aldrei hefur slík mynd hlotið dreifingu til jafns við kvikmynd í fullri lengd. Hreyfimyndasmiðjan framleiðir myndina og meðframleiðendur eru kvikmyndafyrirtækið Miðstræti og Alfreð Ásberg Árnason hjá Samfilm (Sambíóunum). Með aðalhlutverk fara Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson, Guðmundur Jónas Haraldsson, Pálmi Alexander Guðmundsson og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann.
Haft var samband við Warner Bros kvikmyndverið til þess að fá leyfi fyrir því að sýna myndina á undan Clint. Þeim leist vel á en sögðu að allt þessu líkt yrði meistarinn að samþykkja sjálfur. Að endingu kom samþykki frá þeim gamla og verður myndin eins og áður sagði sýnd á almennum bíósýningum á undan nýjustu mynd Clints, Gran Torino. Ekki fylgdi sögunni hvað þessum Íslandsvini og hörkutóli fannst um stuttmyndina en gefa má að því skóna að samþykkið segi sína sögu. Það stefnir semsagt í kvikmyndaveislu þann 6. mars í Reykjavík, Keflavík og Akureyri
Myndin verður sýnd í Sambíóunum, Álfabakka og Kringlunni og um land allt í kjölfarið.
Aldrei stríð á Íslandi er fyrsta íslenska DIGITAL myndin sem framleidd er skv. þeim stöðlum sem kvikmyndarisarnir Disney, Fox, Paramount, Sony , Universal og Warner Bros. setja fyrir myndir til sýninga í kvikmyndahúsum. Jafn mynd- og hljóðgæði eru því eins og best verður á kosið.

