Variety staðfesti það að 20th Century Fox hafi boðist til að meðframleiða nýjustu Narniu-myndina, sem ber undirheitið Voyage of the Dawn Treader, en Disney ákvað nýlega að segja pass við þessa seríu. Sú nýjasta, Prince Caspian, sem kom út s.l. sumar stóðst sjálfsagt ekki væntingar í aðsókn sem vonast var eftir, en sú mynd kostaði líka heilar $215 milljónir.
Þessa dagana er verið að sjá til þess að framleiðsla Dawn Treader haldist óbreytt. Þegar að Disney átti myndina var stefnt að því að hefja tökur í lok sumars á þessu ári, en ekkert hefur ennþá verið gefið í skyn hvort það breytist eða ekki.
Reiknað er með því að Dawn Treader kosti um $140 milljónir, sem gerir þetta að ódýrustu Narniu-myndinni til þessa, og vonast er til að hún komi í bíó einhvern tímann á næsta ári.
Michael Apted mun leikstýra þriðju myndinni, en Andrew Adamson (leikstjóri 1 og 2), mun vera einn af framleiðendunum.

