Nýjasta myndin frá Woody Allen, Vicky Cristina Barcelona – Sem hefur vakið mikla athygli síðustu misseri, verður frumsýnd á föstudaginn.
Um myndina:
New York lék stórt hlutverk hjá Woody Allen í myndum á borð við Manhattan og Annie Hall en hér er það Barcelona sem er leikvöllurinn fyrir ástarævintýri Vicky (Rebecca Hall) og Cristinu (Scarlett Johansson). Þessar tvær ungu stúlkur frá Bandaríkjunum ákveða að eyða einu sumri á Spáni og hitta frjálslegan listamann (Javier Bardem) og gullfallega en geðveika fyrrverandi eiginkonu hans (Penélope Cruz). Vicky er jarðbundin og um það bil að giftast. Cristina er ævintýragjörn og hvatvís. Þegar þessar fjórar manneskjur flækjast í vef kynlífs og ásta þá skapast bráðfyndin ringulreið að hætti meistara Woody Allen.
Myndin hefur rakað til sín fjöldandum allan af tilnefningum og verðlaunum undanfarið. Myndin var til að mynda tilnefnd til fjögurra Golden Globe-verðlauna og sigraði einn aðalflokkinn þegar hún var valin besta mynd ársins í flokki gaman- og söngvamynda. Fyrir nokkru var Penélope Cruz svo tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkonan í aukahlutverki.
Vicky Cristina Barcelona er talin af mörgum gagnrýnendum vera besta mynd Allens síðan Match Point, og sat hún á mörgum topplistum sem ein af bestu myndum ársins 2008, þ.á.m. hjá New Yorker, Hollywood Reporter og Wall Street Journal.
Getraun:
Í tilefni frumsýningu myndarinnar munum við hér hjá Kvikmyndir.is gefa bíómiða á myndina og þú getur átt möguleika á því að næla þér í miða fyrir þig og einn félaga.
Miðarnir gilda á almennar sýningar.
Þú þarft ekki nema að svara einni léttri spurningu. Sendið svo mail á tommi@kvikmyndir.is og látið fullt nafn fylgja með.
Spurningin hljómar svo:
– Í hvaða flokki er Penélope Cruz tilnefnd til Óskars?
Dregið verður úr þeim póstum sem svara rétt. Ég mun svo hafa beint samband við vinningshafa. Endilega fylgist með á næstu dögum. Dregið verður kl. 12:00 um hádegið á föstudaginn.

