Mickey Rourke er þessa dagana að styrkjast mikið í áliti fólks eftir að hafa fengið frábært umtal vegna nýjustu myndar sinnar, The Wrestler (leikstýrð af Darren Aronofsky).
Í léttu viðtali við MTV var hann spurður hvernig staðan væri á annarri Sin City mynd. Hann sagði að Frank Miller hafi nýlega klárað handritið og að helsti fókusinn núna væri að búa til tökuplan sem hentar sama leikaraliði og seinast, en skv. Rourke eru allir mjög spenntir fyrir að gera nýja Sin City-mynd, en erfitt er að koma öllum á sama stað, á sama tíma.
Rourke bætti því líka við að hann hefði mikla aðdáun gagnvart leikstjóranum Robert Rodriguez og að næsta skrefið í lífi hans væri að vinna með helling af áhugaverðum leikstjórum. Hann segist hafa sóað miklum tíma af ævi sinni í vitleysu, og að best væri að bæta upp fyrir það núna með að standa sig vel og halda góðu orðspori.
The Wrestler kemur annars út í kringum jólin og eru gagnrýnendur sammála um að sú mynd hafi verið það besta á Toronto kvikmyndahátíðinni, sem nú lauk fyrir stuttu.
Annars er verið að vonast eftir að Sin City 2 fari í tökur fyrir jól og komi út í kringum sumarið á næsta ári. Rodriguez er líka þekktur fyrir að gera myndir á mettíma.

