Úrval bestu mynda ársins á RIFF

 Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem stendur yfir dagana 25. september til 5. október, hefur nú fullskipað flokkinn Fyrir Opnu Hafi / Open. Í flokknum eru einungis sýndar nýjar myndir sem þykja skara framúr á kvikmyndahátíðum um víða veröld, en margar hverjar þessara kvikmynda eru meistaraverk margra færustu og virtustu kvikmyndagerðarmanna í heimi. Oftar en ekki yrðu þessar verðlaunamyndir  ekki sýndar á Íslandi annars en á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Hver mynd er sýnd að meðaltali 3 sinnum og miðasala hefst í næstu viku.

Myndalistinn hljóðar svo:

33 atriði úr lífinu / 33 Scenes From Life  Malgorzata Szumowska, Pólland

Askja Pandoru / Pandora’s Box   Yesim Ustuoglu, Kazakhstan

Aðdáun / Adoration    Atom Egoyan, Kanada

Áður en ég gleymi / Before I Forget  Jacques Nolot, Frakkland

Blóm á reiki / Drifting Flowers   Zero Chou, Taívan

Ég hef elskað þig lengi / Il y a longtemps que je t’aime Philipe Claudel, Frakkland

Góðir kettir / Good Cats   Ying Liang , Kína

Hefnd / Revanche    Götz Spielmann, Austurríki

Hræðileg hamingja / Terribly Happy  Henrik Ruben Genz, Danmörk

Kort af Barcelona / Barcelona (A Map)  Ventura Pons, Spánn

Landsbyggðarkennarinn / Country Teacher  Bogdan Slama, Tékkland

Lengsta leiðin / The Most Distant Course  Jing-Jie Lin, Taívan

Óþokkaveisla / A Feast of Villains   Pan Jian-Lin, Kína

Mín Winnipeg / My Winnipeg   Guy Maddin, Kanada

O’Horten     Bent Hamer, Noregur

Rannsakandinn / The Investigator   Attila Galambos, Ungverjaland

Speglar sálarinnar / Two Looks   Sergio Candel, Spánn

Eins og sést þá er breiddin gríðarlega mikil, en myndirnar koma frá 3 heimsálfum, allt í allt frá 12 mismunandi löndum og eru eftir bæði konur og karla. Margar hverjar hafa sópað til sín verðlauna á hátíðum um allan heim og þótt fjölbreytnin sé mikil eiga þær allar það sameiginlegt að vera það besta af því besta, þessar myndir eru rjóminn af alþjóðlegri kvikmyndagerð.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu RIFF, en hátíðin hefst 25.september næstkomandi. Hér að neðan má síðan sjá nánari upplýsingar um nokkrar kvikmyndanna:

33 atriði úr lífinu / 33 Scenes From Life

33 Scenes From Life er mynd sem fjallar um að horfast í augu við raunveruleikann. Aðalsöguhetjan Júlía hefur hingað til haft mjög gott líf. Hún á góða fjölskyldu og glæsilegan eiginmann, og er auk þess að vinna í þátttöku í stórri samsýningu sem á eftir að tryggja frama hennar sem atvinnuljósmyndara. En allt þetta virðist vera hverfult. Stuttu eftir að móðir hennar deyr fer faðir hennar að sökkva sér ofan í alkóhólisma. Eiginmaður hennar virðist of upptekinn af sínum eigin starfsframa til að hjálpa henni og vonir hennar um heimsfrægð sem ljósmyndari gufa upp. Í einmanaleika sínum byrjar Júlía að halda framhjá. En þessi skammtímalausn vindur fljótt upp á sig og skyndilega þarf hún að gera upp við sig hvort það sé þess virði.

Askja Pandoru / Pandora’s Box

Þrjú systkini á fimmtugsaldri í Istanbúl, tvær systur og einn bróðir, fá fréttir um það kvöld eitt að öldruð móðir þeirra hafi horfið frá heimili sínu við Svarta hafið. Þau leggja af stað að finna hana en þegar systkynin hittast kemur spennan á milli þeirra fljótlega í ljós, rétt eins og þegar askja Pandóru opnaðist og allir lestir mannsins fundu sér leið inn í veröldina. Systkynin átta sig á því að þau vita merkilega lítið um hvort annað og þurfa að horfast í augu við eigin galla. En þau eru ekki síður ókunnug Tyrknesku óbyggðunum og sveitunum. Þau hafa fjarlægst sjálf sig og sitt eigið land sökum eigin hugsanaleti.  

Aðdáun / Adoration

Aðdáun fjallar um tengsl – tengsl okkar við hvort annað, við fjölskyldu okkar og sögu hennar, við tækni og við nútímann. Sabine er frönskukennari í gagnfræðaskóla og gefur nemendum sínum verkefni byggt á raunverulegri frétt, um hryðjuverkamann sem kom sprengju fyrir í ferðatösku ófrískrar kærustu sinnar. Þetta fær einn nemanda hennar, Simon, til þess að fara að grafa í leyndarmálum eigin fjölskyldu, en hann fjarlægist þó fjölskylduna um leið og nær aðeins að mynda alvöru tengsl við frönskukennarann Sabine. Ringulreið unglingsáranna og sjálfbirgingsháttur eru í forgrunni, hvort sem er í hinum raunverulega heimi eða sýndarverunni, heimi sem er ekki síður raunverulegur fyrir mörgum sem lifa í honum. 

Áður en ég gleymi / Before I Forget

Pierre má sannarlega muna fífil sinn fegurri. Um dagana hefur hann notið góðs af gjafmildi eldri herramanna – gegn greiða – en þegar auðugur elskhugi hans deyr eftir að hafa alið önn fyrir honum í 35 ár, neyðist Pierre til að líta til baka og gera upp líf sitt. Hann hefur verið HIV-jákvæður í aldarfjórðung og heilsan er slæm, en Pierre afþakkar alla lyfjagjöf af ótta við að missa hárið. Á tímamótum togast margt á innra með honum. Hann harmar horfna æsku og það hve illa hann nýtti tíma sinn en skilur jafnframt að nú er tímabært að búa sig undir efri árin. Jacques Nolot leikstýrir og fer jafnframt með hlutverk Pierre.
 
Blóm á reiki / Drifting Flowers

Í þessari taiwönsku kvikmynd vefur leikstjórinn Zero Chou saman þrjár ástarsögur lesbískra kvenna. Við kynnumst Jing, blindri söngkonu í næturklúbbi, Meigo, litlu systur hennar, og sambandi þeirra við harmónikuleikarann Chalkie sem elst upp í brúðuleikhúsi. Þá fylgjumst við með Lily sem þjáist af Alzheimer og leitar horfinnar ástar í gloppóttu minni sínu og yfirfærir hana á hommann Yen sem hún giftist til að fela samkynhneigð þeirra. Síðan hittum við Chalkie og Lily aftur á yngri árum ásamt fleiri skrautlegum persónum. Í sameiningu skapar myndatakan og persónusköpunin kvikmynd sem á tilgerðarlausan og ástríðufullan hátt rýnir í fegurð og trega tilverunnar og hvernig andstæður hins kvenlega og karllega togast á í lesbískri reynslu kvenna.

Ég hef elskað þig lengi / Il y a longtemps que je t’aime

Il y a longtemps que je t´aime er önnur mynd leikstjórans og skáldsagnahöfundarins Philippe Claudel. Andrúmsloft myndarinnar er spennuþrungið, en jafnframt umvafið dulúð. Hún segir frá systrunum Juliette og Leu sem hittast í fyrsta sinn eftir fimmtán ár. Önnur þeirra lumar á hræðilegu leyndarmáli og hin er þjökuð sáru samviskubiti. Hversu vel þær þekkjast eftir aðskilnaðinn og hort þær geti fyrirgefið hvor annarri liggur ekki í augum uppi, en ást og fjölskyldubönd geta ef til vill ekki bætt fyrir alla glæpi.

Góðir kettir / Good Cats

Góðu kettirnir gerist í Sichuan-héraði í Kína sem var í fréttum í ár vegna hrikalegra jarðskjálfta í héraðinu. Nafnið sjálft er tilvísun í orð Deng Xiaopong, fyrrum formanns kommúnistaflokks Kína, sem sagði: „Það skiptir ekki máli hvort kettir séu svartir eða hvítir, svo framarlega sem þeir veiða mýs eru þeir góðir.” Aðalsöguhetjan Luo, lítur björtum augum fram á veginn þrátt fyrir að vera láglaunaður bílstjóri í vinnu hjá spilltum fasteignasala. Tengdaforeldrar hans nöldra sífellt í honum um að hann verði að græða meiri peninga og hætta að reykja. Eiginkonan hans vinnur dag og nótt sem hjúkrunarkona á spítala, og hann á í ástarsambandi með vændiskonu á meðan. Góðu kettirnir er kaldhæðnisleg sýn á kínverskt samfélag sem veltir upp spurningunni um hvert það stefni á sama tíma og hún kitlar hláturtaugarnar.

Hefnd / Revanche

Revanche sýnir okkur tvo heima. Annars vegar víðáttumikla skóga og sveitasælu Austurríkis og hins vegar hin spillta heim mannsals og vændis í útjöðrum Vínarborgar. Þessir tveir heimar mætast þegar Alex og Tamara fá loks nóg af því að vera föst í veröld vændisins og ákveða dag nokkurn að ræna banka. Fyrir valinu verður banki í sveitaþorpi á bernskuslóðum Alex og áætlunin á að vera pottþétt. En ekkert fer eins og þau hafa hugsað sér. Lögreglumaður skýtur Tamöru til bana og draumar Alex um nýtt líf eru að engu orðnir. Hann felur sig hjá afa sínum í von um að geta komið fram hefndum á lögreglumanninum. Revanche er vönduð mynd sem tekur fyrir sígildan efnivið um ást, sorg og hefndir, og meðhöndlar hann þannig að seint gleymist.

Hræðileg hamingja / Terribly Happy

Hræðileg hamingja eftir Henrik Ruber Genz, vann nýlega aðalverðlaun Karovy Vary kvikmyndahátíðarinnar, Kristalshnöttinn. Myndin fjallar um lögregluþjóninn Robert sem er fluttur í lítið sveitaþorp á Suður-Jótlandi eftir að hafa brotið af sér í starfi. Smátt og smátt kemst Robert að því að þar er ekki allt með felldu, heldur búa hræðileg leyndarmál að baki grímu smáþorpsins. Myndin er byggð á skáldsögu Erling Jepsen.
 
Kort af Barcelona / Barcelona (A Map)

Rosa og Ramon eru gamalt par sem eiga gamalt hús þar sem þau leigja út gömul herbergi sín til einhleypra. Myndin byggir á fimm löngum samtölum þar sem Rosa og Ramon ræða við leigjendur sína. Það er ljóst að gamla parið er að reka alla út úr byggingunni, en ekki er ljóst af hverju. Löng og afslöppuð en áhrifarík samtölin eru brotin upp með myndum frá Barcelona og í bakgrunni hljóðar óperan La Boheme, en áhrif hennar verða sífellt meiri þegar líður á myndina.

Landsbyggðarkennarinn / Country Teacher

Hæfileikaríkur og gáfaður kennari er ráðinn til skóla í litlu sveitaþorpi. Þar kemst hann í kynni við sautján ára pilt og móður hans. Honum kemur vel saman við móðurina en hefur fyrst og fremst áhuga á syninum. Þegar fyrrum kærasti kennarans kemur til þorpsins áttar hann sig á því að enginn í þorpinu er meðvitaður um samkynhneigð kennarans. Öfundsýki þessa fyrrum elskhuga hrindir af stað atburðarás sem mun draga dilk á eftir sér. Landsbyggðakennarinn er mynd um höfnun og leitina að ást. Allar persónur myndarinnar bera í brjósti sér leynda drauma og þrár en hafa litla möguleika á að láta þá rætast.
 
Lengsta leiðin / The Most Distant Course

Þessi ljúfsára en fallega taiwanska mynd segir frá þremur manneskjum sem öll þurfa að horfast í augu við óvissu og efa. Sálfræðingurinn A-Tsai er á mörkum taugaáfalls, hljóðmaðurinn Xiao Tang er nýbúinn að lenda í sambandsslitum og skrifstofukonan Royun var að uppgötva að kærastinn hennar heldur framhjá henni. Þau fara öll í einhvers konar ferðlag til reyna að átta sig á lífi sínu. Leiðir þeirra liggja saman bæði beint og óbeint.  A-Tsai og Xiao verða ferðafélagar á meðan Royun er alltaf skrefi á eftir þeim. Þetta er saga um fólk sem vill endurheimta þá hamingju sem það telur sig hafa tapað en veit ekki alveg hvernig þau eiga að fara að því.

Óþokkaveisla / A Feast of Villains

Samkvæmt leikstjóranum sjálfum er ekkert merkilegt við aðalsöguhetju þessarar myndar. Fu Gui fyllir upp í ákveðið rými í heiminum en gerir lítið annað en það. Í raun er Fu Gui ekkert annað en lúbarinn hundur sem á ekki annað svar við umheiminum en taugaveikluð óttaviðbrögð. Í Óþokkaveislu fylgjumst við með örvæntingarfullum tilraunum Fu Gui til þess að útvega þau lyf sem pabbi hans þarf á að halda til að lifa af. Hann fer suður á bóginn til þess að selja úr sér annað nýrað, en það er svindlað illilega á honum og eftir skurðaðgerðina er hann alveg jafn blankur og öðru nýranu fátækari. Þegar hann kemur tilbaka er faðir hans dauður og hann situr uppi með útfararkostnað sem meiri en hann hefur ráð á. Óþokkaveisla er tragíkómísk sýn á ljótan veruleika.

Mín Winnipeg / My Winnipeg

Hér er á ferðinni mjög persónuleg mynd fyrir leikstjórann Guy Maddin þar sem hann bregður upp mjög svo sérkennilegri en skemmtilegri mynd af heimabæ sínum, Winnipeg.  Myndin er sett upp sem einhvers konar kveðjubréf til Winnipeg þar sem Maddin leggur af stað í ferðalag með lest úr Winnipeg og rifjar upp sögu borgarinnar í leiðinni.  Maddin lýsir sjálfur myndinni sem “Heimildar-fantasíu” og er hún gerð í stíl þöglu myndanna.  Hann veltir m.a. vöngum um hvers vegna Winnipeg státi af heimsmeti í fjölda svefngengla og tekur upp á því að endurskapa ákveðin atvik úr æsku sinni þar og fær háaldraða móður sína til að leika yngri útgáfu af sjálfri sér.  Maddin sýnir fram á hvernig borgin hefur mótað hann og sömuleiðis hvers hann vegna hann vilji nú yfirgefa hana.

O’Horten

Lestarstjórinn Odd Horten er orðinn 67 ára gamall og því kominn á eftirlaunaaldur.  Horten hefur alltaf haft röð og reglu á hlutunum en furðuleg atburðarrás verður til þess að hann missir af síðustu lestarferð sinni.  Horten sér fram á breytingar í lífinu og virðist ekki vera viss hvernig hann á að takast á við þær.  Hann lendir í ýmsum skrítnum aðstæðum sem allar minna hann á að dauðinn nálgast og að heimurinn hefur breyst.  Hann týnir pípunni sinni, sofnar í gufubaði og villist á flugvelli.  Þessi gamansama en angurværa mynd er eins konar myndlíking um dauðann, nokkuð sem allir munu þurfa að kljást við fyrr eða síðar. Eftir stutt stopp í Hollywood, þar sem hann gerði myndina Factotum, er Bent Hamer aftur kominn til heimalands sins, Noregs, í þessari nýju og stórskemmtilegu mynd.
 
Rannsakandinn / The Investigator

Rannsóknarmaðurinn er ungversk mynd gerð í samvinnu við írska og sænska framleiðendur. Þessi spennumynd hefur raðað að sér verðlaunum fyrir handrit, leik og leikstjórn. Í myndinni fylgjumst við með hinum fámála meinafræðingi Tibor Malkáv, en honum hafa orðið á hræðileg mistök. Hann tók að sér að myrða mann gegn greiðslu, en peningana hyggst hann nota til að greiða fyrir krabbameinsmeðferð móður sinnar. Nú leitar Tibor uppi manninn sem réð hann til verksins til að reyna að komast að því hvers vegna hann vilji verða valdur að dauða annars manns. Það eina sem hann hefur í höndunum er bréf frá fórnarlambi sínu en hann býr yfir óstöðvandi vilja  til að komast að sannleikanum. Rannsóknarmaðurinn hefur hlotið mikið lof fyrir frumleika, góðan leik og gott handrit.

Speglar sálarinnar / Two Looks

Sofia og Laura eru ungar vinkonur á ferðalagi og kvikmyndin lýsir deginum eftir að þær vakna saman eftir viðburðaríka nótt og átta sig á því að allt er breytt. Sögusviðið er eyðimörkin litríka, San Pedro de Atacama í Chile og kvikmyndavélin fylgist með stúlkunum eins og fluga á vegg á meðan þær berjast hvor á sinn hátt við að komast yfir þessi vegamót í sambandi sínu og púsla saman atburðum næturinnar, vitandi vits að gömul vinátta verður aldrei framar sú sama. Á spennuþrunginn hátt er hér rýnt í tungumál hins ósagða og erfiða, og leikstjórinn, Sergio Candel, bíður í vari eftir fágætum augnablikum í ryki eyðimerkurinnar og speglum sálarinnar.