Hinn skemmtilegi leikari Benicio Del Toro ( The Way of the Gun ) er að fara að leika hinn sögufræga Che Guevara í nýrri kvikmynd. Verður henni leikstýrt af Steven Soderbergh ( Erin Brockovich ) og mun hann gera hana þegar How To Survive A Hotel Room Fire, sem hann er að gera með Julia Roberts og fleirum, er lokið. Hafa þessir tveir kumpánar, Soderbergh og Del Toro, áður unnið saman og úr því varð kvikmyndin Traffic sem sló svo sannarlega í gegn á óskarsverðlaunaathöfninni síðast. Eins og flestir vita var Che Guevara skæruliði, sem vann með Fidel Castro að því að steypa Batista af stóli á Kúbu. Eftir það stundaði hann skæruhernað víðs vegar um Suður-Ameríku þar til hann lést í átökum. Hann hefur síðan orðið sögufræg fígúra, og flestir háskólanemar hafa að minnsta kosti einu sinni gengið í bol með mynd af honum framaná. Þetta gæti orðið mjög athyglisverð mynd ef vel tekst til.

